Kjartan Freyr Ásmundsson, formaður Íslensks Toppkörfubolta ætlar að bjóða sig fram til formanns Körfuknattleikssambands Íslands.
Þetta tilkynnti hann í samtali við mbl.is í dag en hann hefur verið formaður Toppkörfubolta frá árinu 2023.
Hann var formaður körfuknattleiksdeildar Hauka frá 2015 til 2018 en hann er einn af eigendum Kontakt-fyrirtækjaráðgjafar í dag.
„Ég er að bjóða mig fram þar sem ég tel mig hafa bæði reynsluna og þekkinguna til þess að leiða Körfuknattleikssambandið í rétta átt,“ sagði Kjartan í samtali við mbl.is.
„Margt verið mjög vel gert hjá KKÍ. Við þurfum þó að halda áfram að fjölga iðkendum innan sambandsins, styrkja markvisst starfið hvað varðar sem dæmi fræðsluna, og dómarastörfin. Ég hef talað fyrir því áður að það þarf að nútímavæða starfið og einnig að bæta í þegar kemur að tekjuöflun fyrir körfuboltann á Íslandi. Þetta er að mestu leyti eilif barátta við stjórnvöld en svo er það einnig okkar í hreyfingunni að gera allt sem við getum til að hámarka tekjurnar í gegnum markaðs, og réttindamál,“ sagði Kjartan.
Kjartan vill aðstoða félögin fjárhagslega með árlegum greiðslum til þeirra, líkt og tíðkast hjá Knattspyrnusambandi Íslands.
„Ég tel að mínir kraftar myndu nýtast mjög vel þegar kemur að því að sækja fjármagn fyrir hreyfinguna. Ég vil líka gera sambandinu það kleift að geta greitt til baka til félaganna. Félögin hafa staðið sig frábærlega í því að búa stórkostlega vöru í efstu deildum karla og kvenna og það þarf að skila einhverju til baka til þeirra.
Það er erfitt að reka hreyfingu eingöngu á sjálfboðaliðum og það er mikill kostnaður sem fellur á félögin. Ég tel mig hafa reynsluna, þekkinguna, kraftinn og viljann til þess að leggja mitt lóð á vogarskálarnar og til þess að leiða sambandiið áfram í rétta átt,“ bætti Kjartan Freyr við í samtali við mbl.is.