Kristinn: Barátta upp á hverja krónu

Kristinn Albertsson
Kristinn Albertsson Ljósmynd/Aðsend

Krist­inn Al­berts­son, fyrr­ver­andi körfuknatt­leiks­dóm­ari og fjár­mála­stjóri Sam­skipa í Rotter­dam und­an­far­in 17 ár, tilkynnti á dögunum að hann gæfi kost á sér í starf formanns Körfuknattleikssamband Íslands.

Kristinn þekkir flestar hliðar körfuboltans á Íslandi. Hann lék með Val og Breiðabliki og hellti sér síðan út í dómgæslu. Hann varð alþjóðlegur FIBA-dómari aðeins 22 ára, dæmdi yfir 400 úrvalsdeildarleiki og meira en 50 leiki erlendis á vegum FIBA.

Þá sat hann í stjórn KKÍ í fimm ár, þar af gjald­keri í fjög­ur ár, sat í móta­nefnd og dóm­ara­nefnd sam­bands­ins, og var fram­kvæmda­stjóri KKÍ í tvö ár.

„Ég er körfuboltamaður og mitt DNA er í körfubolta. Ég tók mikið þátt í hreyfingunni, sem leikmaður, stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og í dómara- og mótamálum,“ sagði Kristinn við mbl.is um ástæðu þess að hann ákvað að bjóða sig fram.

Kristinn hefur ekki komið beint að körfuboltanum í árabil en er nú klár í slaginn, reynslunni ríkari úr öðrum störfum.

Kristinn tekur við viðurkenningu fyrir dómarastörf á sínum tíma.
Kristinn tekur við viðurkenningu fyrir dómarastörf á sínum tíma. mbl.is/Ásdís

„Svo tók lífið við. Ég var í krefjandi starfi og með fjögur börn. Ég var mikið á ferðalagi og þegar ég var ekki á ferðalagi var ég mikið að dæma. Því miður þurfti körfuboltinn að víkja þá en með miklum trega.

Ég sagði við sjálfan mig að ég kæmi eflaust aftur í körfuboltann. Ég fylgdist áfram með körfuboltanum og sá hann vaxa og dafna virkilega vel. Ég hef á sama tíma náð mér í reynslu í atvinnulífinu og ég vil kanna hvort körfuboltinn hafi áhuga á því að nýta þá krafta mína.

Ég er klár í þetta. Börnin mín eru uppkomin og ég er alfarið kominn til Íslands en ég bjó mikið erlendis í um 20 ár. Ég hef trú á að mitt DNA úr körfunni og reynslan úr atvinnulífinu muni nýtast KKÍ,“ sagði Kristinn.

Ekki langt síðan KKÍ var illa statt

Hann vill styrkja fjárhagsstöðu KKÍ en eins og í fleiri sérsamböndum í íþróttaheiminum getur verið flókið að afla fjár.

„Það þarf ekki snilling til að átta sig á því að það er barátta upp á hverja einustu krónu í þessum samböndum, sérstaklega HSÍ og KKÍ. KKÍ er að halda úti fjölda landsliða með tilheyrandi kostnaði. Það er metnaðarfullt starf en það þarf að hjálpa til við að ná í meira fjármagn.

Ég er fjármálamaður í grunninn, er menntaður og hef starfað í slíku. Það þarf að skoða hvernig er hægt að bæta í það sem vel hefur verið gert. Það er ekki langt síðan KKÍ var illa statt fjárhagslega og HSÍ er ekki endilega á góðum stað. Þetta er endalaus barátta.

Mitt mottó hefur ávallt verið það að KKÍ sé til fyrir félögin en ekki öfugt. Það er lykilatriði og það má ekki missa sjónar á því. Þetta eru regnhlífarsamtök fyrir öll félögin.“

Þarf að vera breið samstaða

Mikið hefur verið rætt og ritað um reglur um fjölda útlendinga í deildunum hér heima. Sumum finnst þeir of margir á meðan aðrir segja fleiri útlendinga styrkja deildina. Kristinn vill finna jafnvægi í þeim málum sem hentar öllum aðilum.

„Það eru ólík sjónarmið sem hafa rétt á sér. Ég held það sé skynsamlegt að það sé einhvers konar rammi yfir þessi mál. Það má ekki setja reglur sem er ekki breið samstaða um. Auðvitað gera sterkir útlendingar deildina sterkari og skemmtilegri á að horfa.

Á sama tíma þarf að vera eitthvert pláss fyrir íslenska leikmenn. Það má líka segja að þeir verði betri ef þeir spila á móti betri leikmönnum. Það þarf samt að skoða hvort það sé hægt að draga línuna og skoða hvað er skynsamlegast.

Viljum við reka atvinnumannadeild þar sem einungis eru útlendingar? Ég er ekki viss um það. Það þarf að finna breiða samstöðu í þessum málum. Vonandi finnur hreyfingin góða lendingu í þessu,“ sagði Kristinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka