Áhyggjuefni fyrir íslenska liðið

Jón Axel Guðmundsson með boltann í leiknum gegn Ungverjum á …
Jón Axel Guðmundsson með boltann í leiknum gegn Ungverjum á fimmtudaginn. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Jón Axel Guðmundsson getur ekki leikið með íslenska landsliðinu í körfuknattleik gegn Tyrkjum í undankeppni EM annað kvöld vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leiknum gegn Ungverjalandi á fimmtudaginn.

Hann glímir við meiðsli í nára og eins og fram kom fyrr í kvöld hefur Kári Jónsson verið tekinn inn í tólf manna hópinn fyrir leikinn í hans stað.

Þetta er áhyggjuefni fyrir Craig Pedersen þjálfara og íslenska liðið en Jón Axel hefur verið í stóru hlutverki í undankeppnini og skoraði t.d. 14 og 15 stig í leikjunum tveimur gegn Ítalíu í þriðju og fjórðu umferðinni.

Það ræðst annað kvöld hvort það verður Ísland eða Ungverjaland sem fylgir Ítalíu og Tyrklandi áfram úr B-riðlinum í lokakeppni EM sem hefst 27. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert