Gamla ljósmyndin: Verður leikjahæstur í langan tíma

mbl.is/Einar Falur

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Leikjahæsti leikmaður karlalandsliðsins í körfuknattleik frá upphafi er Grindvíkingurinn Guðmundur Bragason.

Lék hann 169 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og á lokakafla landsliðsferilsins tók Guðmundur fram úr stigamaskínunni úr Njarðvík Vali Ingimundarsyni sem lék 164 landsleiki. Ekki langt á eftir er leikstjórnandinn úr Keflavík Jón Kr. Gíslason með sína 158 landsleiki. 

Af þeim sem leikið hafa í landsliðstreyjunni á síðustu árum komst Logi Gunnarsson næst Guðmundi en hann er fjórði á listanum með 147 leiki. 

Miðherjinn Guðmundur Bragason verður leikjahæstur í langan tíma til viðbótar því enginn þeirra sem nú eru í landsliðinu eru í sjónmáli á þessum lista. Þar er Ægir Þór Steinarsson leikjahæstur með 90 A-landsleiki. 

Guðmundur gaf lengi kost á sér í landsliðið og spannaði ferillinn með landsliðinu sextán ár, frá 1987 - 2003. Þar skilaði hann alla jafna góðu framlagi og þurfti að glíma við mun hávaxnari menn undir körfunni en Guðmundur er 203 cm á hæð. 

Á meðfylgjandi mynd úr myndasafni Morgunblaðsins smellti Einar Falur Ingólfsson af þegar Guðmundur er í þann mund að troða tuðrunni með látum í körfuna í Laugardalshöllinni. Myndin er líklega tekin í kringum 1990 og er úr Stjörnuleik KKÍ þar sem landsliðsbúningarnir voru stundum notaðir. 

Guðmundur lék lengst með Grindavík á sínum ferli og varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2006 og bikarmeistari árið áður. Hann lék síðar með Haukum um þriggja ára skeið og muna líklega margir einnig eftir honum þar. Erlendis lék Guðmundur með Hamburg og Mitteldeutscher í Þýskalandi. Þar mætti hann á vellinum þýsku goðsögninni Dirk Nowitzki sem þá var einungis 17 ára gamall. 

Jón Axel sonur Guðmundar og Stefaníu Sigríðar Jónsdóttur er fastamaður í íslenska landsliðinu um þessar mundir og fetar í fótspor foreldranna eins og fram hefur komið en Stefanía lék 6 A-landsleiki í íþróttinni. 

Jón Axel fór því miður meiddur af velli í Ungverjalandi á fimmtudaginn og mun ekki vera leikfær þegar Ísland mætir Tyrklandi í Laugardalshöllinni á morgun, sunnudag í lokaumferð undankeppni EM 2025. Ísland getur þar tryggt sér sæti í lokakeppni EM í þriðja sinn. 

Leikurinn hefst klukkan 19:30 og verður að sjálfsögðu í beinni lýsingu hér á mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert