Um níuleytið annað kvöld verður ljóst hvort EM-draumur karlalandsliðsins í körfubolta verður að veruleika. Þá lýkur tveimur síðustu leikjunum í undankeppni EM 2025 þegar Ísland tekur á móti Tyrkjum í Laugardalshöllinni klukkan 19.30 og á sama tíma mætast Ítalir og Ungverjar í Reggio Calabria.
„Þetta er enn í okkar höndum þó við höfum misstigið okkur aðeins í Ungverjalandi. Við stefnum á að vinna Tyrkina og með fulla Laugardalshöll og alvöru stemningu á allt að vera hægt,“ sagði landsliðsmaðurinn Kristinn Pálsson við Morgunblaðið en hann og félagar hans máttu þola tap gegn Ungverjum í Szombathely í fyrrakvöld, 87:78, og misstu þar af fyrra tækifærinu til að tryggja sér EM-sætið.
Tyrkir koma í Laugardalshöllina eftir tap gegn Ítölum á heimavelli, 80:67, í fyrrakvöld en báðar þjóðirnar eru komnar á EM og annað kvöld ræðst hvort Ísland eða Ungverjaland fylgir þeim. Ísland kemst á EM með sigri gegn Tyrkjum en þarf annars að treysta á að Ítalir sigri Ungverja á sama tíma.
„Við verðum að halda því til haga að þetta er enn í okkar höndum. Við erum bjartsýnir á að geta sigrað Tyrkina á heimavelli og í fyrra töpuðum við aðeins fyrir þeim á lokaskotinu í Istanbúl, sem var mjög svekkjandi því okkur fannst við hafa gert nóg til að vinna,“ sagði Kristinn en Tyrkir unnu þann leik 76:75 eftir frábæra frammistöðu íslenska liðsins.
„Við erum bjartsýnir að fá þá heim í kuldann og sjá hvernig þeir aðlagast íslensku umhverfi. Ég vona bara að við fáum alvöru læti og alvöru stuðning í stúkunni og það mun rífa okkur áfram,“ sagði Kristinn.
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.