„Ég get ekki beðið eftir sumrinu,“ sagði landsliðsmaðurinn Elvar Már Friðriksson í samtali við mbl.is eftir glæstan sigur Íslands á Tyrklandi, 83:71, í Laugardalshöll sem tryggði körfuboltalandsliðinu á EM í sumar.
Ísland tryggði sér annað sætið í lokaumferð undankeppninnar með betri stigatölu innbyrðis gegn Tyrkjum. Ítalía vann riðilinn en Ungverjaland endaði neðst.
Ungverjaland vann Ítalíu á Ítalíu en Ísland hefði ekki komist áfram með tapi. Fyrir leik var talið líklegt að Ítalía myndi vinna ungverska liðið en það kom aldrei til greina að hugsa um slíkt hjá landsliðinu.
„Einbeitingin í liðinu frá því að við fórum úr klefanum í Ungverjalandi var rosaleg og það var bara eitt í stöðunni, að fara á EM. Við ætluðum ekki að treysta á neinn annan.“
Elvar fór með íslenska landsliðinu til Finnlands árið 2017 en var í aðeins minna hlutverki þá en nú.
„Algjörlega. Ég er í öðruvísi hlutverki núna og það verður gaman að máta sig við þá bestu á þessu sviði núna. Líka með þessum mannskap. Þegar einbeitingin er í lagi og við erum búnir að spila okkur saman er frábært jafnvægi í hópnum og það er að skila okkur á EM.
Ég get ekki beðið eftir sumrinu.“
Íslenska liðið var mjög einbeitt í kvöld og eini slæmi kaflinn kom aðeins undir lok fyrri hálfleiks.
„Það segir bara til um einbeitinguna í liðinu. Við ætluðum okkur að vinna leikinn og vorum að keppa á fullu, sama hverjir voru á gólfinu. Það voru allir tilbúnir að fórna sér.
Þetta eru allt töffarar, það ætlaði enginn að hika eða sjá eftir einu né neinu. Enginn lítill í kvöld,“ bætti Elvar Már Friðriksson við.