Einn besti leikur sem við höfum spilað

Craig Pedersen ræðir við leikmenn Íslands í leikhléi í kvöld.
Craig Pedersen ræðir við leikmenn Íslands í leikhléi í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Craig Pedersen þjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfubolta var að vonum sáttur við sigurinn á Tyrkjum í kvöld, 83:71 í Laugardalshöllinni, en þar tryggði Ísland sér farseðilinn á Evrópumótið sem hefst 27. ágúst.

Með þessu hefur Craig komið Íslandi þrisvar á EM en liðið lék þar áður undir hans stjórn árin 2015 og 2017. Spurður út í leikinn sagði Craig þetta:

„Ég bjóst ekki við að ná svona góðu forskoti gegn þeim í kvöld og ekki heldur að við næðum að lágmarka áhlaupin þeirra gegn okkur.

Það sem er frábært er að þegar þeir gerðu áhlaup þá tókst okkur að svara þeim vel og ég er í heildina sáttur við leikinn.”

Hvað stendur upp úr að þínu mati í leik íslenska liðsins?

„Það sem stendur upp úr er að allir sem leikmenn komu með eitthvað í leikinn og skiluðu framlagi sem skipti máli. Þetta er einn besti leikur sem við höfum spilað.”

Með sigrinum endar liðið í öðru sæti og fer upp fyrir Tyrkland. Er sigurinn sætari fyrir vikið?

“Ég vissi að ef við myndum vinna með tveimur stigum eða meira þá færum við upp fyrir þá en aðal atriðið og það mikilvægasta var að komast áfram.”

Gerir sigurinn enn sætari

Á þessum tímapunkti vissi Craig ekki að Ungverjar hefðu unnið Ítalíu en þeim leik lauk aðeins seinna en leiknum í Laugardalshöllinni. Spurður hvort að sigurinn á Tyrkjum væri ekki enn sætari í ljósi þess svaraði Craig:

„Ég vissi ekki að Ungverjar hefðu unnið. Jú, það gerir sigurinn enn sætari og mikilvægari. Ég bjóst við að Ítalir myndu vinna Ungverja á sínum heimavelli en kannski slökuðu þeir á í ljósi þess að þeir voru komnir áfram.

Það mikilvægasta í þessu er samt að við gerðum okkar, unnum á okkar heimavelli með hjálp frá frábærum áhorfendum,” sagði Craig Pedersen í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert