Ekki bara Martin, Elvar og Tryggvi

Baldur Þór Ragnarsson og Jón Axel Guðmundsson á hliðarlínunni í …
Baldur Þór Ragnarsson og Jón Axel Guðmundsson á hliðarlínunni í leiknum gegn Ungverjum á fimmtudaginn. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

„Tyrkir eru með miklu betra lið en Ungverjarnir, sem við töpuðum fyrir á fimmtudaginn. En við vitum að við getum alveg unnið svona lið þegar mikið er í húfi," segir Baldur Þór Ragnarsson, annar aðstoðarþjálfara íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik.

Viðureign Íslands og Tyrklands fer fram í Laugardalshöllinni í kvöld og hefst klukkan 19.30. Með sigri er Ísland komið á EM 2025, en annars þarf liðið að treysta á að Ítalir vinni Ungverja á sama tíma.

„Til að vinna Tyrki þurfum við hins vegar að spila hinn fullkomna leik. Það getum við gert og það höfum við gert, eins og í útileikjunum við Ítalíu og Tyrkland í þessari keppni," sagði Baldur við mbl.is en hann og Viðar Örn Hafsteinsson eru aðstoðarþjálfarar landsliðsins og vinna náið með Craig Pedersen þjálfara liðsins.

En hvað þarf til þess að þið náið þessum fullkomna leik?

Viðar Örn Hafsteinsson, Baldur Þór Ragnarsson og Craig Pedersen fara …
Viðar Örn Hafsteinsson, Baldur Þór Ragnarsson og Craig Pedersen fara yfir málin á æfingu íslenska landsliðsins. mbl.is/Víðir Sigurðsson

„Við þurfum fulla höll og mikla stemningu. Við þurfum að passa upp á boltann á sóknarhelmingi og við þurfum að stíga upp í fleiri stöðum. Þetta má ekki vera bara Martin, Elvar og Tryggvi. Nú þurfa allir að koma með framlag sem hefur áhrif á varnarleikinn og sóknarleikinn, við þurfum framlag frá öllum.“

Þurfum að hitta á það sem virkar

„Um leið þarf framlag frá okkur þjálfurunum, planið þarf að vera gott í vörn og sókn og við þurfum að hitta á það sem virkar á móti Tyrkjunum. Ef þetta smellur allt saman, getum við náð í sigur. Það er margt sem þarf að ganga upp," sagði Baldur Þór Ragnarsson, sem jafnframt er þjálfari karlaliðs Stjörnunnar og þjálfar þar fjóra af þeim þrettán sem skipa íslenska landsliðshópinn í þessum tveimur síðustu leikju undankeppninnar.

Þið þurfið að ná í úrslit en Tyrkir eru komnir áfram, mun það ekki setja einhvern svip sinn á leikinn?

„Kannski breytir það pressustiginu á liðunum. Við þurfum okkar besta leik, og mætum allir inn í þetta með sigur og ekkert annað í huga. Það setur okkur í þá stöðu að líkurnar eru fyrir hendi að við munum mæta og eiga góðan leik. Það er eitthvað sem við ætlum okkur að gera og munum gera."

Enda er til mikils að vinna - sæti á EM!

„Já, þetta er risastórt fyrir okkur. Margir í hópnum eru búnir að vera á langri vegferð þar sem við byrjuðum í forkeppni fyrir HM með leik í Kósóvó og auðvitað er þetta eitthvað sem okkur langar ógeðslega mikið að ná í. Það verður allt sett í þetta," sagði Baldur Þór Ragnarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert