Evrópumót karla í körfuknattleik 2025 fer fram í fjórum borgum í fjórum löndum. Katowice í Póllandi, Tampere í Finnlandi, Ríga í Lettlandi og Limassol á Kýpur.
Einn riðill er leikinn í hverri borg. Mótið hefst 27. ágúst og lýkur með úrslitaleik í Ríga 14. september en þar fer útsláttarkeppnin fram.
Dregið verður í riðla keppninnar í Ríga, höfuðborg Lettlands, 27. mars, og fyrir hann verður þjóðunum 24 raðað niður í styrkleikaflokka samkvæmt heimslista Alþjóðakörfuknattleikssambandsins, FIBA.
Ísland verður væntanlega í sjötta og neðsta styrkleikaflokki ásamt Bretlandi, Portúgal og Kýpur, miðað við hvernig heimslistinn leit út fyrir lokaumferð undankeppninnar. Það er þó ekki öruggt og Ísland var t.d. skammt á eftir Svíþjóð á síðasta lista en Svíar væru í næsta flokki fyrir ofan á óbreyttum lista.
Svona myndu þjóðirnar raðast niður samkvæmt síðasta lista, staða á heimslistanum í sviga:
1: Serbía (2), Þýskaland (3), Frakkland (4), Spánn (6).
2: Lettland (9), Litháen (10), Slóvenía (12), Grikkland (13).
3: Ítalía (14), Svartfjallaland (16), Pólland (17), Tékkland (19).
4: Finnland (20), Georgía (24), Tyrkland (27), Ísrael (39).
5: Belgía (40), Bosnía (41), Eistland (43), Svíþjóð (48).
6: Bretland (49), Ísland (51), Portúgal (55), Kýpur (84).