Gott að fá smá skell fyrir hálfleik

Ægir Þór Steinarsson, lengst til hægri, í kvöld.
Ægir Þór Steinarsson, lengst til hægri, í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Ægir Þór Steinarsson skoraði níu stig þegar Ísland tryggði sér þátttökurétt á EM í körfubolta í sumar eftir sigur á Tyrklandi í Laugardalshöll. Hann var í skýjunum þegar mbl.is náði tali af honum strax eftir leik og spurði hvort tyrkneska liðið hafi komið honum á óvart í kvöld.

„Þú veist aldrei hvað þú ert að fara út í. Það sem við vissum var að við myndum keyra upp stemmninguna í stúkunni og það myndi hleypa okkur áfram. Við náðum að byrja leikinn vel og koma áhorfendum snemma í gang. Eftir það fannst mér við bara stýra leiknum frá a-ö og þeir áttu fá svör við okkar leik fannst mér.“

Undir lok fyrri hálfleiks kemur stórt áhlaup frá Tyrkjum og þeir minnka muninn niður í 8 stig. Fór um íslenska liðið á þessum tímapunkti?

„Nei, alls ekki og þvert á móti töluðum við um það í hálfleik að það hafi bara verið gott að fá smá skell fyrir hálfleik því stundum ertu með forystu og kannski hálfsofandi. Eftir að hafa fengið þetta áhlaup þá settum við bara alvöru keyrslu á þá strax í seinni hálfleik og náðum að halda forystunni allan tímann.“

Skrýtna spurningin í ljósi niðurstöðu leiksins og hvert hann fleytir íslenska liðinu. Er eitthvað sem þú hefðir viljað sjá gert betur hjá íslenska liðinu?

„Nei, ég get ekki sagt neitt. Eftir svona leik þá eru tilfinningarnar þannig að framlagið frá öllum var frábært. Stemmningin var bara þannig að þetta minnti á Ítalíuleikinn úti. Ég er bara stoltur af því hvernig við þjöppuðum okkur saman eftir erfitt tap gegn Ungverjum úti og sýndum karakter að vinna Tyrki hérna heima með Eurobasket undir,“ sagði Ægir í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert