Ísland er komið í lokakeppni Evrópumóts karla í þriðja skipti á tíu árum eftir glæsilegan sigur á sterku liði Tyrkja í lokaumferð undankeppninnar í Laugardalshöllinni í kvöld, 83:71.
Um leið tryggði Ísland sér annað sæti riðilsins með sigrinum en liðin enduðu jöfn með 6 stig hvort og Ísland með betri stigatölu innbyrðis. Ungverjar unnu Ítali á útivelli, 71:67, og enduðu með 4 stig en þeir hefðu komist áfram ef Ísland hefði tapað fyrir Tyrklandi. Ítalir unnu eftir sem áður riðilinn með 8 stig.
Íslenska liðið byrjaði leikinn af krafti og var komið í 14:4 um miðjan fyrsta leikhluta. Nákvæmlega eins byrjun og í Ungverjalandi á fimmtudaginn en að þessu sinni var ekkert gefið eftir og staðan var 26:16 að leikhlutanum loknum.
Í öðrum leikhluta sýndi íslenska liðið hvað eftir annað frábær tilþrif, bæði í vörn og sókn, og var um tíma komið sextán stigum yfir, 38:22 og síðan 43:27. En á lokamínútunni réttu Tyrkir sinn hlut verulega með miklu áhlaupi þar sem þeir skoruðu síðustu sjö stig hálfleiksins og staðan var 46:38 í hálfleik.
Á sama tíma voru Ungverjar með forystu í leiknum á Ítalíu, 32:27, og því ljóst að íslenska liðið fengi ekkert gefins. Tryggvi Snær Hlinason skoraði 13 stig og tók 10 fráköst í fyrri hálfleiknum og Martin Hermannsson sýndi hvað eftir annað flotta takta, skoraði 11 stig og átti fjórar stoðsendingar.
Tyrkir minnkuðu muninn í 46:40 en þá komu þristar frá Elvari Má Friðrikssyni og Martin, 52:40. En tyrkneska liðið hélt áfram að saxa á forskotið og útlit fyrir að taugatrekkjandi kafli væri framundan. Stórkostleg varnartilþrif Hauks Helga Pálssonar og magnaðar körfur Martins og Hauks á næstu mínútunni komu Íslandi hins vegar aftur í góða stöðu, 61:49.
Kári Jónsson bættist skömmu síðar í stækkandi hóp þriggja stiga körfuhafa og kom Íslandi í 69:54 þegar ein mínúta var eftir af þriðja leikhluta og þannig var staðan að honum loknum. Áfram var jafn barningsleikur á Ítalíu og Ítalir þar yfir gegn Ungverjum, 39:36, á sama tíma.
Lítið gekk að skora á fyrstu mínútum fjórða leikhluta en það átti sem betur við um bæði lið og Kári braut ísinn með þriggja stiga körfu, 72:56. Á sama tíma virtust Ítalir loksins ætla að hrista Ungverjana af sér og voru komnir í 50:42.
Þegar Tyrkir höfðu komið muninum niður í tíu stig á ný kom enn einn þristurinn, nú frá Elvari Má, 77:64. Þegar Ægir Þór Steinarsson kom Íslandi í 81:69 og aðeins þrjár mínútur eftir var sigurinn loks í augsýn.
Þegar Martin Hermannsson skoraði, 83:71, rúmri mínútu fyrir leikslok má segja að fögnuðurinn hafi hafist. Ísland er komið á EM!
Martin Hermannsson skoraði 23 stig, Elvar Már Friðriksson 13, Tryggvi Snær Hlinason 13, Kristinn Pálsson 9, Ægir Þór Steinarsson 9, Haukur Helgi Pálsson 7, Kári Jónsson 6, Orri Gunnarsson 2, og Bjarni Guðmann Jónsson 2.