Kristinn Pálsson var meyr eftir frábæran sigur á Tyrkjum í kvöld sem þýðir að Ísland leikur á EM í sumar. Spurður út í tilfinninguna að vera fara spila á sínu fyrsta stórmóti í körfubolta sagði Kristinn þetta:
„Þetta er í raun ólýsanlegt. Maður er búinn að fara í nokkur viðtöl eftir þennan leik og maður er hálf orðlaus. Maður veit eiginlega ekki hvernig manni á að líða.“
Leið þér alltaf eins og þið væruð að fara vinna þennan leik þegar þú varst inni á vellinum?
„Já stemmningin í hópnum og orkan var allt önnur en sú sem var í Ungverjaleiknum. Við náðum svolítið að byggja á þessari orku og bæta upp fyrir það sem vantaði í síðasta leik.
Fyrir mig persónulega var það þannig að þau skot sem klikkuðu hjá mér voru skotin sem mér leið best með og þá ertu að fara eiga góðan leik. Þetta var einn af þessum dögum þar sem allt gengur upp,“ sagði hann.
Íslenska liðið var að spila yfirburða körfubolta oft á tíðum og sjaldan hefur liðið verið jafn sýnilega mótiverað og í kvöld. Hvernig var undirbúningi háttað fyrir þennan leik?
„Við vissum sjálfir að þetta hefur alltaf verið í okkar höndum þegar við komum inn í landsleikjagluggann. Við gripum tækifærið um leið og það kom í kvöld og byrjuðum leikinn með látum. Það eina sem við hugsuðum um var að keyra í bakið á þeim, ná stoppum og setja niður skot.
Það tókst og þetta var bara einn af þeim leikjum þar sem við vorum að hitta og ná svo nokkrum góðum stoppum í röð. Þannig byggðum við upp 10 stiga forskot sem við náðum að halda mest allan leikinn fyrir utan kannski tvisvar sinnum í leiknum þar sem þeir gera áhlaup og okkur vantaði smá fókus. Annars fannst mér þeir ekki gera neitt sem við höndluðum ekki.“
Í lok fyrri hálfleiks kemur alvöru áhlaup hjá Tyrkjum og maður hugsaði að nú væru Tyrkirnir að fara að sýna sitt rétta andlit. Hvað fór í gegnum hugann á íslenska liðinu á þessum tímapunkti?
„Bara að halda áfram því við vissum að við gátum fengið gott skot í hverri einustu sókn. Þetta snerist aðallega um að klára varnirnar og ná varnarfráköstum. Þeirra helsti styrkur var að ná sóknarfráköstum. Um leið og við náðum að læsa því þá vorum við í góðum málum.“
Týpíska leiðin hjá okkur Íslendingum er að treysta á önnur úrslit. Það hefði ekki gengið eftir í kvöld því Ungverjar unnu Ítali.
„Akkúrat, sem er ótrúlegt. Við vorum allir tilbúnir í að sama hvað myndi gerast þá vorum við 95% vissir um að Ítalir myndu vinna og bara kredit á Ungverja, þeir voru frábærir á móti okkur.
Ég er bara svo stoltur af strákunum að hafa unnið í kvöld. Sérstaklega eftir að hafa tapað svona tilfinningaríkum leik á móti Ungverjum og mæta síðan svona risastórir hingað heim eins og við eigum alltaf að vera,“ sagði Kristinn í samtali við mbl.is.