Það á að loka landinu

Martin Hermannsson átti stórleik í kvöld.
Martin Hermannsson átti stórleik í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Landsliðsmaðurinn Martin Hermannsson var mjög glaður þegar mbl.is talaði við hann eftir sigur Íslands á Tyrklandi, 83:71 í Laugardalshöllinni í kvöld, sem tryggði Íslandi á EM í körfubolta í sumar.

Martin átti magnaðan leik en hann skoraði 23 stig og var stigahæstur í liði Íslands. 

Hvernig gírar maður sig upp í svona leik?

„Það er mjög auðvelt og ástæðan af hverju maður er í þessu. Full höll, fjölskyldan að horfa, allt undir, þetta eru augnablikin sem maður eyðir endalaust af dögum að undirbúa sig fyrir. 

Djöfull var þetta gaman. Allir flottir, þvílíkt hjarta, þvílík leikgleði. Mikil stemning í höllinni, svona búa þeir til þessar kvikmyndir. Ég gæti haldið endalaust áfram.

Við erum komnir á þann stall að við erum ekki hræddir við neina þjóð sem kemur hingað. Við erum búnir að vinna mjög stórar körfuboltaþjóðir síðustu ár. 

Það var engin hræðsla eða efi í okkar leik, við ætluðum bara að vinna. Fyrir einhverjum árum hefði það ekki verið séns, á móti Tyrklandi. Nú erum við á þeim stað að ef við töpum á móti Ungverjalandi, þá förum við bara heim og vinnum Tyrkland. Við erum að standa við stóru orðin,“ sagði Martin í samtali við mbl.is. 

Allir eiga að fara út 

Evrópumótið fer fram 27. ágúst til 14. september. Það er örlítið eftir að flestir Íslendingar taka sumarfrí sitt. Martin vill að fólkið í landinu reddi sér fríi og komi að sjá Ísland á stórmóti.

„Það er ekki á hverju degi sem við erum með landslið á stórmóti í skemmtilegustu íþrótt í heimi. 

Það á bara að loka landinu á meðan EM er í gangi. Þetta er það skemmtilegasta í heimi. Mæta, gott veður, vera í kringum gott fólk og fá sér aðeins. 

Ef þú átt ekki pening þá byrjarðu að safna fyrir þessu. Allir eiga að fá sér frí. Ef atvinnurekandi er með eitthvað vesen þá hringir þú í mig, við reddum þessu,“ sagði Martin á léttu nótunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert