„Það þýðir ekkert að setja niður hausinn þó svona hafi farið í Ungverjalandi. Það er bara að mæta í leikinn gegn Tyrkjum í Laugardalshöllinni og klára þetta," sagði Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfuknattleik.
Ísland mætir Tyrklandi í lokaumferð undankeppni EM karla í Laugardalshöllinni í kvöld klukkan 19.30. Sigur kemur Íslandi á EM 2025 en tapist leikurinn þarf að treysta á að Ítalir vinni Ungverja á sama tíma.
Tyrkir eru komnir á EM eins og Ítalir en eru með sex stig og Ísland getur farið fram úr þeim með sigri í kvöld og náð öðru sæti riðilsins. Tyrkir unnu fyrri leik þjóðanna í Istanbúl með aðeins eins stigs mun, 76:75, þar sem allt stefndi í óvæntan íslenskan sigur.
„Ég missti af þeim leik en það var hörkuleikur sem tapaðist á flautukörfu í lokin. Tyrkirnir eru með hörkulið og þetta er algjörlega þannig að við þurfum að mæta og eiga okkar A-leik, ef svo má segja," sagði Haukur við mbl.is.
„Það þarf að vera alvöru orka í okkur, eins og Baldur (Þór Ragnarsson aðstoðarþjálfari) orðar það. Við þurfum að gíra okkur upp í þetta. Og við höfum eiginlega aldrei farið léttu leiðina í þessari baráttu um að komast á stórmót, það hefur loðað við okkur og fleiri íslensk landslið. Þetta hefur verið íslenska leiðin.
En hún er svona og við þurfum að byggja ofan á það sem var gott í leiknum við Ungverja. Við gerðum helling vel í leiknum á fimmtudaginn, við vildum fá þá djúpt inn í teiginn og láta þá ekki fá opna þrista, en þeir leystu það bara vel, settu niður stór skot og það gekk allt upp hjá þeim. Við þurfum bara að lifa með því," sagði Haukur sem er einn þriggja leikmanna Íslands í dag sem fóru á EM 2015 og 2017. Hinir eru Martin Hermannsson og Ægir Þór Steinarsson.
Uppselt er í Laugardalshöllina og Haukur hlakkar mikið til að spila fyrir framan fulla höll og góða stemningu í kvöld.
„Já, það er alltaf gaman að spila þessa leiki. Við höfum spilað nokkra svoleiðis heimaleiki. Auðvitað fórum við í þessa tvo leiki með það hugarfar að klára dæmið í Ungverjalandi en að ná takmarkinu á heimavellinum væri það bara enn sætara, fyrir framan fulla höll og í okkar húsi. Þetta verður bara partý.
Þetta er ennþá í okkar höndum, það er fegurðin við þetta, og það góða við körfuboltann, eins og fleiri íþróttir, er að þó að það komi einn skellur er stutt í næsta leik þar sem þú getur endurheimt. Núna er gott að það skuli vera svona stutt á milli leikja," sagði Haukur Helgi Pálsson.