Tilfinningin er mögnuð

Baldur Þór Ragnarsson aðstoðarþjálfari í fanginu á Tryggva Snæ Hlinasyni …
Baldur Þór Ragnarsson aðstoðarþjálfari í fanginu á Tryggva Snæ Hlinasyni eftir sigurinn í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

„Tilfinningin er ótrúlega góð. Hún er alveg mögnuð. Það er þreyta vissulega eftir leikinn en bara gleði, hamingja og stolt. Það er fyrst og fremst stolt,“ sagði Tryggvi Snær Hlinason, leikmaður Íslands í körfubolta, eftir að liðið tryggði sér sæti á EM 2025 í kvöld.

Ísland lagði Tyrkland 83:71 í Laugardalshöllinni eftir að hafa tapað fyrir Ungverjalandi ytra á fimmtudag. Spurður hvað liðið hafi bætt á milli leikjanna tveggja sagði Tryggvi:

„Við vissum alveg hvað við áttum að gera. Þetta er náttúrlega svolítið öðruvísi lið og við nýttum okkur það. Við vissum að þeir myndu ráðast á okkur niðri en við náðum að loka vel á þá.

Ég held að við höfum verið mjög góðir þar og við vorum að frákasta. Fyrst og fremst var þetta orrusta. Við vorum að berjast allan tímann, sýndum hvað við getum og héldum þeim í skefjum allan leikinn.“

Tryggvi Snær Hlinason ræðir við RÚV eftir leikinn í kvöld.
Tryggvi Snær Hlinason ræðir við RÚV eftir leikinn í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Menn voru glæsilegir í dag

Ísland hóf bæði leikinn gegn Ungverjalandi og gegn Tyrklandi á því að komast í 14:4. Gegn Ungverjalandi seig hins vegar á ógæfuhliðina en gegn Tyrkjum tókst íslenska liðinu að láta kné fylgja kviði.

„Við fylgdum þessu eftir. Þeir komust alltaf aðeins inn í leikinn en við náðum svona að halda stjórninni allan tímann. Við vissum það sérstaklega í þriðja leikhluta að við þyrftum að byrja vel upp á að halda í forystuna og við gerðum það. Þetta var algjörlega til fyrirmyndar,“ sagði hann.

Íslenska liðið hitti einstaklega vel úr þriggja stiga skotum sínum í leiknum í kvöld.

„Við vorum fyrst mjög duglegir að ráðast á körfuna og vorum að fá mjög mikið úr því. Mér finnst eins og þeir hafi síðan  breytt til og ákveðið að veðja á að við myndum klikka á skotum fyrir utan en menn settu þessi skot og voru glæsilegir í dag,“ sagði Tryggvi.

Öðruvísi hlutverk frá því á síðasta EM

Hann tók í fyrsta sinn þátt á EM 2017 og er því á leið á sitt annað Evrópumót í haust.

„Það er magnað. Á fyrsta mótinu var maður náttúrlega bara ungur, krakki eða þannig. Það er búið að breytast svolítið hlutverk manns í liðinu en ég er ótrúlega spenntur.

Ég held að það verði alveg magnað og ég get ekki beðið eftir sumrinu, meira en vanalega. Þetta verður alveg frábært,“ sagði Tryggvi að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert