Aþena vann dramatískan sigur á Hamar/Þór, 88:87, þegar liðin áttust við í nýliðaslag í 19. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik í neðri hluta deildarinnar í Hveragerði í kvöld.
Hamar/Þór er áfram í næstneðsta sæti með 12 stig. Aþena er sem fyrr á botninum en nú með átta stig og á enn von um að halda sér í deildinni.
Leikurinn í kvöld var æsispennandi og í járnum allan tímann. Undir blálokin tókst heimakonum í Hamar/Þór að sigla örlítið fram úr en Aþena gafst ekki upp. Dzana Crnac setti niður þriggja stiga skot þegar skammt var eftir og Hamar/Þór klúðraði í kjölfarið lokasókn sinni.
Abby Beeman fór sem fyrr fyrir Hamar/Þór og skoraði 34 stig ásamt því að taka tíu fráköst, gefa fimm stoðsendingar og stela boltanum sjö sinnum.
Hjá Aþenu var Barbara Zienieweska stigahæst með 18 stig og fjóra stolna bolta. Dzana var með 14 stig.