Öruggt hjá Stjörnunni

Katarzyna Trzeciak með boltann í leiknum í kvöld.
Katarzyna Trzeciak með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan vann þægilegan sigur á Grindavík, 77:64, í 19. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik, í neðri hluta deildarinnar, í Garðabæ í kvöld.

Stjarnan er í öðru sæti neðri hlutans með 16 stig líkt og Tindastóll sæti ofar. Grindavík er í þriðja neðsta sæti með 12 stig.

Leikurinn var geysilega jafn í fyrri hálfleik og var Grindavík einu stigi yfir, 40:41, að honum loknum.

Í síðari hálfleik tók Stjarnan hins vegar leikinn yfir, var mest 22 stigum yfir þegar skammt var eftir og vann að lokum öruggan 13 stiga sigur.

Katarzyna Trzeciak var stigahæst í leiknum með 21 stig og átta fráköst. Denia Davis-Stewart var þá öflug með 18 stig, 15 fráköst og fimm varin skot.

Isabella Ósk Sigurðardóttir var stigahæst hjá Grindavík með 16 stig, átta fráköst, fjóra stolna bolta og þrjú varin skot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert