Stefna á fyrsta sigurinn á EM

Martin Hermannsson brunar að körfu Tyrkja í eitt skiptið af …
Martin Hermannsson brunar að körfu Tyrkja í eitt skiptið af mörgum í sigurleiknum gegn Tyrkjum í Laugardalshöllinni í fyrrakvöld. Morgunblaðið/Ólafur Árdal

Ísland er sem fyrr fámennasta þjóðin sem hefur komist í lokakeppni Evrópumóts karla í körfuknattleik en eftir sigurinn glæsilega á Tyrkjum í Laugardalshöllinni í fyrrakvöld er íslenska liðið á leið þangað í þriðja skipti.

Ísland lék á EM árin 2015 og 2017 og mátti sætta sig við fimm ósigra í jafnmörgum leikjum á báðum mótunum. Það er því ljóst að fyrsta markmið íslenska liðsins á EM 2025 verður að brjóta þann múr og innbyrða fyrsta sigurinn á stóra sviðinu.

Árið 2015, þegar leikið var í Berlín í Þýskalandi, komst íslenska liðið nálægt því að sigra Tyrki en tapaði í framlengdum leik, 111:102, eftir að Logi Gunnarsson jafnaði á ævintýralegan hátt með þriggja stiga körfu á lokasekúndu venjulegs leiktíma.

Tveir aðrir hörkuleikir

Ísland veitti Þýskalandi og Ítalíu harða keppni, tapaði 71:65 fyrir Þjóðverjum og 71:64 fyrir Ítölum. Liðið átti minni möguleika í hinum tveimur leikjunum og tapaði 93:64 fyrir Serbíu og 99:73 fyrir Spáni. Serbar urðu fjórðu á mótinu og Spánverjar Evrópumeistarar. Ítalir enduðu í sjötta sæti, Tyrkir í fjórtánda og Þjóðverjar í átjánda sæti af 24 liðum.

Þrír núverandi landsliðsmenn, Martin Hermannsson, Haukur Helgi Pálsson og Ægir Þór Steinarsson, voru í liði Íslands í Berlín.

Árið 2017 var riðill Íslands leikinn í Helsinki í Finnlandi og þar urðu fimm töp líka niðurstaðan.

Besta frammistaðan var gegn Finnum í lokaleiknum en finnska liðið, með Lauri Markanen, núverandi leikmann Utah Jazz, í aðalhlutverki, knúði fram nauman sigur á heimavelli, 83:79.

Ísland hafði áður tapað 90:61 fyrir Grikklandi, 91:61 fyrir Póllandi, 115:79 fyrir Frakklandi og 102:75 fyrir Slóveníu. Slóvenar, með kornungan Luka Doncic í lykilhlutverki, urðu Evrópumeistarar, Grikkir áttundu, Finnar elleftu, Frakkar tólftu og Pólverjar átjándu.

Greinina má nálgast í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert