Martin Hermannsson var einn besti leikmaðurinn í undankeppni Evrópumótsins í körfubolta að mati FIBA, alþjóða körfuknattleikssambandsins.
Leikstjórnandinn átti sinn þátt í að Ísland tryggði sér sæti á EM með glæsilegum sigri á Tyrklandi í Laugardalshöll á sunnudaginn var og lék hann afar vel í undankeppninni.
Í fjórum leikjum skoraði hann 20 stig, tók fjögur fráköst og gaf þrjár stoðsendingar að meðaltali. Hann missti af leikjunum við Ítalíu á heima- og útivelli í nóvember vegna meiðsla.
Á meðal annarra leikmanna sem eru tilnefndir eru Mario Hezonja frá Króatíu, Cedi Osman frá Tyrklandi og Slóveninn Kremen Prepelic.