Grindvíkingar tóku á móti Keflvíkingum í 19. umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Grindavíkur, 101:91. Leikið var í Smáranum í Kópavogi.
Grindavík er með 20 stig eftir leikinn en Keflavík er með 16 stig.
Leikurinn var mjög jafn framan af þó Grindvíkingar leiddu mest allan fyrri hálfleikinn. Þegar rúm mínúta var eftir af fyrsta leikhluta var staðan 24:16 fyrir Grindavík.
Keflvíkingar gáfust ekki upp og söxuðu á forskot Grindavíkur fyrir lok fyrsta leikhluta og var staðan að honum loknum 28:22 fyrir Grindavík og munurinn 6 stig.
Keflvíkingar byrjuðu annan leikhluta vel og héldu áfram að þjarma að Grindvíkingum. Þeim tókst að jafna leikinn í stöðunni 32:32 og 34:34. Gestirnir náðu síðan forystu í stöðunni 41:39 fyrir Keflavík en þá sögðu Grindvíkingar stopp.
Grindvíkingar settu í næsta gír í framhaldinu, skoruðu þriggja stiga körfu og komust aftur yfir 42:41. Þegar 1:11 var eftir af fyrri hálfleik voru Grindvíkingar komnir 10 stigum yfir í stöðunni 58:48.
Keflvíkingar náðu þó aðeins að saxa á forskot Grindavíkur og var staðan eftir fyrri hálfleik 59:50.
Deandre Kane skoraði 18 stig í fyrri hálfleik fyrir Grindavík og tók 5 fráköst.
Callum Reese Lawson skoraði 13 stig fyrir Keflavík. Nigel Pruitt tók 4 fráköst fyrir Keflvíkinga.
Grindvíkingar byrjuðu sterkir í þriðja leikhluta og náðu mest 16 stiga forskoti í stöðunni 69:53. Þann mun vann Keflavík heldur betur niður því þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leikhlutann um var staðan orðin 75:70 fyrir Grindavík.
Grindvíkingar náðu þó að bæta stöðuna fyrir lok þriðja leikhluta og var staðan 77:70 þegar honum lauk.
Fjórði leikhluti var alvöru barátta. Bæði lið voru að setja flottar körfur. Keflvíkingar reyndu mikið við þriggja stiga skotin til að vinna niður muninn og það tókst.
Þegar 3 mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta var staðan 82:78 fyrir Grindavík og munurinn aðeins 4 stig. Grindavíkingar bitu frá sér og juku muninn aftur en Keflvíkingar gáfust ekki upp og minnkuðu muninn aftur í 4 stig í stöðunni 84:80.
Grindvíkingar ætluðu heldur betur ekki að gefa sigurinn eftir. Deandre Kane fínstillti miðið hjá sér og setti niður tvær þriggja stiga körfur í röð og staðan skyndilega farin úr 84:80 í 90:80 fyrir Grindavík og munurinn orðinn 10 stig þegar rúmar 4 mínútur voru eftir af leiknum.
Keflvíkingar héldu áfram að reyna. Þeir settu 5 stig í röð og minnkuðu muninn niður í 5 stig í stöðunni 90:85. Þessu áhlaupi svöruðu Grindvíkingar með þriggja stiga körfu. Staðan 93:85.
Keflavík setti í kjölfarið líka þrist þegar 2:58 voru eftir og staðan 93:88. Fimm stiga munur og mikil spenna í Smáranum. Keflvíkingum tókst síðan að minnka muninn niður í 4 stig í stöðunni 95:91 en þá mætti Kristófer Breki Gylfason með þriggja stiga körfu fyrir Grindavík og staðan 98:91 og sigurinn líklega unninn því það var rétt um mínúta eftir af leiknum.
Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn en tókst ekki og lauk leiknu með sigri Grindvíkinga.
Deandre Kane var með 27 stig fyrir Grindavík og 10 fráköst. Ty-Shon Alexander var með 19 stig og 11 fráköst fyrir Keflavík.
Smárinn, Bónus deild karla, 28. febrúar 2025.
Gangur leiksins:: 10:5, 12:9, 22:16, 28:22, 32:30, 39:37, 50:46, 59:50, 64:53, 69:57, 73:62, 77:70, 82:78, 90:80, 95:88, 101:91.
Grindavík: Deandre Donte Kane 27/10 fráköst/6 stoðsendingar, Jeremy Raymon Pargo 25/5 fráköst/9 stoðsendingar, Lagio Grantsaan 22/5 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 9, Bragi Guðmundsson 8, Ólafur Ólafsson 5, Daniel Mortensen 5/5 fráköst.
Fráköst: 26 í vörn, 5 í sókn.
Keflavík: Ty-Shon Alexander 19/11 fráköst, Remu Emil Raitanen 19/7 fráköst, Callum Reese Lawson 16/4 fráköst, Nigel Pruitt 15/6 fráköst, Jaka Brodnik 11, Hilmar Pétursson 8, Igor Maric 3/5 fráköst.
Fráköst: 28 í vörn, 7 í sókn.
Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Jakob Árni Ísleifsson, Ingi Björn Jónsson.
Áhorfendur: 478