Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur var svekktur með 10 stiga tap gegn Grindavík í kvöld.
Grindavík vann leikinn 101:91 en Keflavík er í áttunda sæti deildarinnar með 16 stig.
Spurður út í hvað það var sem á endanum kostaði Keflavík sigurinn sagði Sigurður þetta.
„Leikurinn var í járnum nánast allan tímann en þeir áttu góða spretti inn á milli og náðu að setja niður þessi stóru skot. Við náðum þeim samt alltaf aftur.
Ég hefði viljað sjá mína menn spila betri vörn í fyrri hálfleik. Við spiluðum frábæra vörn á köflum í seinni hálfleik og frábæran liðsbolta. En síðan í lok leiksins þá komu þessar stóru körfur frá þeirra leikmönnum á meðan okkur tókst ekki að gera einmitt það.“
Myndirðu þá segja að munurinn felist í þessum stóru skotum sem komu frá Deandre Kane og Breka?
„Það voru þristarnir hjá einmitt þessum leikmönnum sem lögðu grunninn að þessu hjá þeim í lokin.“
Keflavík er með 16 stig og 3 leikir eftir. Er úrslitakeppnin að hverfa úr augsýn hjá Keflavík?
„Nei, við eigum þrjá leiki eftir eins og þú segir og við spilum þá alla en samt bara einn í einu og sjáum síðan hvar við stöndum eftir það.“
Næsti leikur er á móti Tindastóli. Er raunhæfur möguleiki fyrir Keflavík að vinna þann leik á útivelli?
„Já að sjálfsögðu. Þeir eru ekkert ósigrandi frekar en önnur lið. Núna vorum við að klára þennan leik og förum á morgun í að undirbúa okkur fyrir leikinn gegn þeim.“
Þannig frá þínum bæjardyrum séð þá eigum við von á sigri gegn Tindastóli á fimmtudag?
„Já það væri skemmtilegt að vinna Tindastól fyrir norðan,“ sagði Sigurður í samtali við mbl.is.