Grindavík hafði betur gegn Aþenu, 85:71, í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í kvöld í einvígi tveggja neðstu liða deildarinnar. Var leikið í Smáranum, tímabundnum heimavelli Grindvíkinga.
Grindvíkingar eru nú með 14 stig, eins og Hamar/Þór í áttunda til níunda sæti. Aþena er í slæmum málum á botninum með átta stig.
Grindavík var með nauma forystu í hálfleik, 39:35. Grindvíkingar unnu svo þriðja leikhlutann 26:16 og var Aþena ekki líkleg til að jafna eftir það.
Daisha Bradford skoraði 27 stig, tók 10 fráköst og gaf 8 stoðsendingar fyrir Grindavík. Isabella Ósk Sigurðardóttir gerði 18 stig og tók 10 fráköst.
Violet Morrow var stigahæst hjá Aþenu með 17 stig og Dzana Crnac gerði 12.