Shai Gilgeous-Alexander átti stórbrotinn leik fyrir Oklahoma City Thunder í 137:128-sigri á Houston Rockets í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
Kanadabúinn Gilgeous-Alexander gerði sér lítið fyrir og skoraði 51 stig ásamt því að gefa sjö stoðsendingar.
Er þetta í fjórða sinn sem hann skorar 50 stig eða meira á tímabilinu og hefur Gilgeous-Alexander raunar náð því á undanförnum sjö vikum. Hann hefur skorað flest stig allra í NBA-deildinni á tímabilinu og níu sinnum skorað 40 stig eða meira.
Jalen Williams bætti við 24 stigum í liði Oklahoma City. Stigahæstur hjá Houston var Cam Whitmore með 27 stig og 11 fráköst.
Steph Curry var atkvæðamestur hjá Golden State Warriors með 21 stig og tíu stoðsendingar þegar liðið lagði Charlotte Hornets, 119:101.
Stigahæstur í leiknum var Miles Bridges með 35 stig og níu fráköst fyrir Charlotte.
Önnur úrslit:
Philadelphia – Portland 102:119
Miami – Washington 106:90
Memphis – Atlanta 130:132
Dallas – Sacramento 98:122
Utah – Detroit 106:134