Vont tímabil varð töluvert verra

Kyrie Irving liggur meiddur eftir.
Kyrie Irving liggur meiddur eftir. AFP/Sam Hodde

Vont tímabil Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfubolta varð töluvert verra í dag þegar í ljós kom að Kyrie Irving, skærasta stjarna liðsins, sleit krossband í hné í leik gegn Sacramento Kings á mánudagsnótt.

Verður Irving frá keppni næstu tíu mánuðina eða svo, aðeins nokkrum vikum eftir að félagið losaði sig við aðra stórstjörnu í Luka Doncic. Voru stuðningsmenn félagsins allt annað en sáttir við að missa Doncic og nú er erfitt tímabil orðið enn erfiðara.

Irving lék aðeins í níu mínútur áður en hann meiddist. Þrátt fyrir að krossbandsslit séu ein allra verstu meiðsli sem íþróttamenn geta lent í skoraði Irving úr tveimur vítum áður en hann fór haltrandi af velli.

Dallas er í tíunda sæti Vesturdeildarinnar með 32 sigra og 30 töp og í baráttu um að fara í úrslitakeppnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert