Njarðvík tók á móti Keflavík í efri hluta úrvalsdeildar kvenna í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Njarðvíkur 105:96. Leikið var í Innri-Njarðvík. Eftir leikinn er Njarðvík með 30 stig en Keflavík er með 24 stig.
Keflavíkurkonur byrjuðu betur í kvöld og komust 4:0 yfir. Njarðvíkurkonur jöfnuðu í 4:4 en eftir það skiptust liðin á að jafna og komast yfir í fyrsta leikhluta sem var frábær skemmtun.
Það verður samt að segjast að Keflavíkurkonur áttu auðveldara með að framkvæma sínar aðgerðir en Njarðvík. Það breytti því þó ekki að þegar fyrsta leikhluta lauk var staðan jöfn 27:27.
Keflavíkurkonur voru betri í öðrum leikhluta þó svo að hálfleikstölurnar gefi það ekki endilega til kynna. Njarðvíkurkonur eltu allan leikhlutann og þurftu iðulega að vinna upp forskot Keflavíkur sem mest varð 7 stig í stöðunni 42:35 fyrir Keflavík og svo aftur í stöðunni 44:37.
Njarðvíkurkonur náðu þó að saxa á forskot Keflavíkur áður en að fyrri hálfleik lauk og var staðan 52:50 fyrir Keflavík í hálfleik.
Paulina Hersler skoraði 17 stig í fyrri hálfleik fyrir Njarðvík. Emilie Sofie tók 8 fráköst. Hjá Keflavík var Jasmine Dickey með 16 stig fyrir Keflavik en hún virtist meiðast í öðrum leikhluta. Sara Rún Hinriksdóttir tók 4 fráköst.
Njarðvíkurkonur byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og náðu mest þriggja stiga forskoti í stöðunni 55:52. Keflavíkurkonur voru ekki á þeim buxunum að gefa eftir forskot sitt og gerðu frábær áhlaup þegar um 5 mínútur voru eftir af þriðja leikhluta og náðu 8 stiga forskoti á örfáum mínútum og staðan skyndilega orðin 70:62 fyrir Keflavík.
Njarðvíkurkonur voru ekki á því að gefast upp, söxuðu niður forskot Keflavíkur og komust yfir í stöðunni 75:74 með glæsilegri þriggja stiga körfu frá Kristu Gló.
Það sem eftir lifði þriðja leikhluta var allt í járnum og fóru Keflavíkurkonur inn í fjórða leikhluta með eins stigs forskot í stöðunni 78:77 fyrir Keflavík.
Fjórði leikhluti var rosalegur. Njarðvíkurkonur mættu dýrvitlausar til leiks og náðu mest 11 stiga forskoti í stöðunni 94:83. Þann mun minnkuðu Keflavík og urðu lokamínúturnar svakalegar. Þegar 1:45 voru eftir af leiknum var staðan 97:93, 4 stiga munur.
Njarðvíkurkonur reyndust þó sterkari á lokamínútum leiksins og náðu að auka muninn í 10 stig í stöðunni 103:93 og unnu að lokum 9 stiga sigur.
Paulina Hersler skoraði 33 stig fyrir Njarðvík og Emilie Sofie var með 17 fráköst. Hjá Keflavík var Sara Rún Hinriksdóttir með 19 stig og 6 fráköst.
IceMar-höllin, Bónus deild kvenna, 05. mars 2025.
Gangur leiksins:: 2:4, 15:13, 19:22, 27:27, 32:32, 35:40, 41:46, 50:52, 57:56, 62:65, 70:74, 77:78, 83:78, 90:83, 97:91, 105:96.
Njarðvík: Paulina Hersler 33/5 fráköst/3 varin skot, Brittany Dinkins 30/8 fráköst/15 stoðsendingar, Emilie Sofie Hesseldal 23/17 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Krista Gló Magnúsdóttir 9, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 5, Hulda María Agnarsdóttir 5/5 stoðsendingar.
Fráköst: 26 í vörn, 8 í sókn.
Keflavík: Sara Rún Hinriksdóttir 19/6 fráköst/6 stoðsendingar, Anna Lára Vignisdóttir 18/4 fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir 17/4 fráköst/6 stoðsendingar, Jasmine Dickey 16/4 fráköst, Julia Bogumila Niemojewska 12/6 fráköst/9 stoðsendingar, Anna Ingunn Svansdóttir 10, Katla Rún Garðarsdóttir 2, Agnes María Svansdóttir 2.
Fráköst: 20 í vörn, 7 í sókn.
Dómarar: Bjarki Þór Davíðsson, Gunnlaugur Briem, Sigurbaldur Frímannsson.
Áhorfendur: 230