Lokakeppnin kostar sambandið tugi milljóna

Leikmenn Íslands fagna sæti í lokakeppni EM 2025.
Leikmenn Íslands fagna sæti í lokakeppni EM 2025. mbl.is/Ólafur Árdal

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta leikur í D-riðli Evrópumótsins í Katowice í Póllandi en Ísland verður svokölluð samstarfsþjóð Póllands í riðlakeppninni.

Þetta tilkynnti Körfuknattleikssambands Íslands í gær en Slóvenía, með Luka Doncic í broddi fylkingar, leikur einnig í sama riðli.

Þann 27. mars verður svo dregið í riðla fyrir lokamótið í Riga í Lettlandi en riðlakeppnin verður leikin í Póllandi, Lettlandi, Finnlandi og á Kýpur. Útsláttarkeppnin fer svo fram í Lettlandi.

Vináttulandsleikjum fylgir kostnaður

„Mótið sjálft kostar í kringum 30 milljónir íslenskra króna en einhver hluti af því er niðurgreiddur af FIBA,“ sagði Hannes Sigurbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, í samtali við mbl.is þegar hann var spurður út í kostnaðinn sem fylgir því að taka þátt á EM.

„Við viljum spila vináttuleiki fyrir lokakeppnina, helst á heimavelli, og því fylgir líka kostnaður. Ef við tökum þetta allt saman inn í myndina myndi ég segja að kostnaðurinn við sumarið sé í kringum 50 milljónir króna.

Við græðum á því að vera samstarfsþjóð Pólverja og þessi kostnaður ætti því að lækka eitthvað,“ bætti Hannes við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert