James Harden fór á kostum í liði LA Clippers er liðið vann góðan sigur á Detroit Pistons, 123:115, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
Hinn fagurskeggjaði Harden gerði sér lítið fyrir og skoraði 50 stig og gaf fimm stoðsendingar. Cade Cunningham í liði Detroit fór mikinn og skoraði 37 stig, tók sjö fráköst og gaf tíu stoðsendingar.
Kanadamaðurinn Shai Gilgeous-Alexander skoraði 40 stig eða meira í tíunda sinn á tímabilinu er hann var með 41 stig og átta stoðsendingar í 120:103-sigri Oklahoma City Thunder á Memphis Grizzlies.
Gilgeous-Alexander er stigahæsti leikmaður NBA-deildarinnar og er með 33 stig að meðaltali í leik á tímabilinu.
Gríska undrið Giannis Antetokounmpo fór fyrir Milwaukee Bucks þegar hann skoraði 32 stig og tók 15 fráköst í 137:107-sigri á Dallas Mavericks.
Klay Thompson var atkvæðamestur hjá Dallas með 28 stig.
Önnur úrslit:
Boston – Portland 128:118
Charlotte – Minnesota 110:125
Cleveland – Miami 112:107
Washington – Utah 125:122
Denver – Sacramento 116:110