Ármann er kominn upp í efstu deild kvenna í körfubolta eftir þægilegan sigur á varaliði Stjörnunnar í 1. deildinni í kvöld á heimavelli sínum í Laugardalshöll, 102:57.
Ármannskonur hafa unnið alla sextán leiki sína í deildinni til þessa og getur KR ekki lengur náð liðinu á toppnum.
KR-ingar eiga þrjá leiki eftir og geta jafnað Ármann á stigum en Ármenningar eru með betri árangur innbyrðis eftir tvo sigra á KR fyrr á tímabilinu.
KR verður eitt þriggja liða úr 1. deild sem berst við næstneðsta lið úrvalsdeildarinnar í umspili um sæti í deild þeirra bestu á næsta tímabili.
Jónína Þórdís Karlsdóttir átti stórleik fyrir Ármann, skoraði 24 stig, tók níu fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Alarie Mayze gerði 19 stig. Sigrún Sól Brjánsdóttir skoraði 13 stig og tók tíu fráköst fyrir Stjörnuna.