Grindavík vann framlengdan grannaslag

Brynjar Kári Gunnarsson úr Njarðvík með boltann í kvöld.
Brynjar Kári Gunnarsson úr Njarðvík með boltann í kvöld. mbl.is/Eyþór

Grindavík tók á móti Njarðvík í 20. umferð Úrvalsdeildar karla í körfubolta og lauk leiknum með sigri Grindavíkur 122:115 eftir framlengdan leik. Leikið var í Smáranum í Kópavogi. Eftir leikinn er Grindavík komið í 22 stig en Njarðvíkingar eru áfram með 26 stig.

Grindvíkingar voru betri í fyrsta leikhluta og voru aðgerðir þeirra mun auðveldari í ásýnd en það sem Njarðvíkingar voru að gera. Þetta átti sérstaklega við um sóknarleik liðanna. 

Í stöðunni 11:10 fyrir Njarðvík kom alvöru áhlaup frá Grindvíkingum sem skoruðu 8 stig í röð og komust yfir í stöðunni 18:11. Grindvíkingar héldu góðu forskoti út fyrsta leikhluta sem endaði í stöðunni 35:28 fyrir Grindavík. 

Njarðvíkingar bitu frá sér í öðrum leikhluta og minnkuðu muninn niður í 3 stig í stöðunni 45:44 fyrir Grindavík. Njarðvíkingar unnu síðan boltann og komust yfir í stöðunni 47:45 eftir þrjú stig frá Dwayne Lautier. 

Grindvíkingar jöfnuðu leikinn í 47:47 og aftur í 49:49 en þá tóku Grindvíkingar aftur völdin á vellinum og náðu 7 stiga forskoti fyrir lok fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik 62:55 fyrir Grindavík. 

Ólafur Ólafsson skoraði 12 stig og tók 5 fráköst fyrir Grindavík í fyrri hálfleik. Dwayne Lautier skoraði 15 stig fyrir Njarðvík og Dominykas Milka tók 4 fráköst. 

Njarðvíkingar byrjuðu seinni hálfleikinn með tveimur þriggja stiga körfum í röð og minnkuðu muninn niður í eitt stig í stöðunni 62:61 fyrir Grindavík. 

Njarðvíkingar jöfnuðu síðan leikinn í stöðunni 66:66 og komust yfir í stöðunni 68:66. Njarðvíkingar héldu síðan áfram og náðu mest 5 stiga forskoti í stöðunni 73:68 en þá sögðu Grindvíkingar hingað og ekki lengra.

Grindavík minnkaði muninn og var staðan þegar 3:15 voru eftir af þriðja leikhluta 76:75 fyrir Njarðvík. Grindavík komst síðan yfir í stöðunni 77:76 með troðslu frá Braga Guðmundssyni.

Eftir þetta var leikurinn í algjörum járnum. Þegar lítið var eftir af þriðja leikhluta tóku dómarar leiksins við aðalhlutverkinu sem að öllu jöfnu ætti ekki að vera þeirra hlutverk í svona háspennuleikjum.

Khalil Shabazz skoraði þá tveggja stiga körfu og vildi Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur meina að á honum hafi verið brotið í skotinu. Mótmælti hann því að ekkert væri dæmt og fékk dæmda á sig tæknivillu, enda með aðvörun á bakinu.

Rúnar Ingi var eðlilega ekki ánægður og lét dómarana heyra það sem gáfu engin grið og vísuðu honum úr húsi. Setur ofanritaður stórt spurningamerki við slíka yfirtöku dómgæslunnar enda hefur venjan verið sú að þjálfarar fái að láta heyra í sér.

Staðan eftir þriðja leikhluta var jöfn, 82:82.

Fjórði leikhluti var gríðarlega spennandi eins og vænta mátti miðað við það sem á undan var gengið. Njarðvíkingar náðu forskoti í leiknum en Grindvíkingar jöfnuðu í stöðunni 89:89.

Njarðvíkingar náðu 4 stiga forskoti í stöðunni 89:93 með svakalegri troðslu frá Evans. Njarðvíkingar náðu 7 stiga forskoti í stöðunni 96:89 en Ólafur Ólafsson svaraði strax með mikilvægri þriggja stiga körfu og staðan orðin 96:92.

Njarðvíkingar náðu 9 stiga forskoti í stöðunni 103:94 en þá kom frábær þriggja stiga karfa frá Arnóri Helgasyni og munurinn var aðeins 6 stig þegar fjórar mínútur og 9 sekúndur voru eftir af leiknum.

Njarðvíkingar náðu 10 stiga forystu í stöðunni 107:97 en þá mætti Deandre Kane og setti niður tveggja stiga körfu og stig að auki úr vítaskoti. Staðan 107:100 fyrir Njarðvík og 2:32 eftir af leiknum.

Grindvíkingar voru alls ekki á því að gefast upp. Þeir gerðu risaáhlaup á Njarðvíkinga og minnkuðu muninn niður í 3 stig þegar 43 sekúndur voru eftir af leiknum og unnu boltann í kjölfarið. Staðan á þessum tímapunkti var 111:108 fyrir Njarðvík.

Grindvíkingar keyrðu upp í sókn og minnkuðu muninn niður í eitt stig í stöðunni 111.110 fyrir Njarðvík. Aftur unnu Grindvíkingar boltann, keyrðu upp völlinn og fór Bragi Guðmundsson alla leið og leit allt út fyrir að hann fengi dæmdan á sig ruðning.

Dómararnir voru ekki á því og fékk hann tvö vítaskot þegar rétt um ein sekúnda var eftir. Aðeins annað þeirra fór niður og þurfti því að framlengja.

Grindvíkingar reyndust talsvert sterkari í framlengingunni og var það þriggja stiga karfa frá Ólafi Ólafssyni og tvistur í kjölfarið frá Arnóri Helgasyni sem kom Grindavík 5 stigum yfir og var það náðarhögg Njarðvíkur í leiknum.

Grindavík vann að lokum sjö stiga sigur 122:115.

DeAndre Kane skoraði 23 stig og tók 9 fráköst fyrir Grindavík í kvöld. Dwayne Lautier skoraði 30 stig fyrir Njarðvík og Dominykas Milka tók 10 fráköst.

Grindavík - Njarðvík 122:115

Smárinn, Bónus deild karla, 07. mars 2025.

Gangur leiksins:: 5:9, 16:11, 23:20, 33:28, 45:39, 45:47, 49:49, 62:55, 64:63, 66:71, 75:76, 82:82, 89:93, 94:101, 97:107, 111:111, 115:115, 122:.

Grindavík: Deandre Donte Kane 23/9 fráköst/6 stoðsendingar, Jeremy Raymon Pargo 22/14 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 20/8 fráköst, Daniel Mortensen 13/6 fráköst/5 stoðsendingar, Lagio Grantsaan 12, Arnór Tristan Helgason 11/5 fráköst, Bragi Guðmundsson 10, Valur Orri Valsson 6, Kristófer Breki Gylfason 5.

Fráköst: 26 í vörn, 12 í sókn.

Njarðvík: Dwayne Lautier-Ogunleye 30/5 fráköst/6 stoðsendingar, Dominykas Milka 25/10 fráköst, Khalil Shabazz 21/6 stoðsendingar, Snjólfur Marel Stefánsson 10, Mario Matasovic 10/5 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 9/5 fráköst, Evans Raven Ganapamo 6, Isaiah Coddon 2, Brynjar Kári Gunnarsson 2.

Fráköst: 25 í vörn, 7 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Gunnlaugur Briem, Jakob Árni Ísleifsson.

Áhorfendur: 783

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Grindavík 122:115 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert