NBA reynsluboltanum synjað um dvalarleyfi

Tony Wroten í leik með Philadelphia 76ers í NBA-deildinni á …
Tony Wroten í leik með Philadelphia 76ers í NBA-deildinni á sínum tíma. AFP

Útlendingastofnun hefur synjað umsókn bandaríska körfuboltamannsins Tony Wroten um dvalarleyfi og mun hann því ekki leika með Selfossi í 1. deildinni eins og samið hafði verið um.

Vísir greinir frá því að dvalarleyfi Wrotens, sem á að baki 145 leiki í NBA-deildinni, hafi verið hafnað á þeim grundvelli að hann væri dæmdur afbrotamaður í heimalandinu.

Wroten var einn af 18 fyrrverandi NBA-leikmönnum sem voru á síðasta ári dæmdir fyrir hlutdeild sína að stórfelldum fjársvikum.

Leikmennirnir lugu til um veikindi og/eða meiðsli til þess að færa sér heilsutryggingu deildarinnar, sem fyrrverandi leikmenn falla ennþá undir að ferlinum loknum, í nyt og svíkja þannig fé út úr deildinni. Sak­sókn­ari í New York greindi frá því að svik­in næmu mörg­um millj­ón­um banda­ríkja­dala.

Allt að 16 ára fangelsi á Íslandi

Í samtali við Vísi í síðasta mánuði sagði Sverrir Sigurjónsson, lögmaður Selfoss, að umsókninni um dvalarleyfi hafi verið hafnað á þeim forsendum að hann hafi brotið gegn lögum er varða allt að sextán ára fangelsi á Íslandi.

Körfuknattleiksdeild Selfoss brást við með því að skila inn greinargerð til Útlendingastofnunar þar sem rökstutt var að engin ógn stafaði af Wroten en fengu aftur neitun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert