Útlendingastofnun hefur synjað umsókn bandaríska körfuboltamannsins Tony Wroten um dvalarleyfi og mun hann því ekki leika með Selfossi í 1. deildinni eins og samið hafði verið um.
Vísir greinir frá því að dvalarleyfi Wrotens, sem á að baki 145 leiki í NBA-deildinni, hafi verið hafnað á þeim grundvelli að hann væri dæmdur afbrotamaður í heimalandinu.
Wroten var einn af 18 fyrrverandi NBA-leikmönnum sem voru á síðasta ári dæmdir fyrir hlutdeild sína að stórfelldum fjársvikum.
Leikmennirnir lugu til um veikindi og/eða meiðsli til þess að færa sér heilsutryggingu deildarinnar, sem fyrrverandi leikmenn falla ennþá undir að ferlinum loknum, í nyt og svíkja þannig fé út úr deildinni. Saksóknari í New York greindi frá því að svikin næmu mörgum milljónum bandaríkjadala.
Í samtali við Vísi í síðasta mánuði sagði Sverrir Sigurjónsson, lögmaður Selfoss, að umsókninni um dvalarleyfi hafi verið hafnað á þeim forsendum að hann hafi brotið gegn lögum er varða allt að sextán ára fangelsi á Íslandi.
Körfuknattleiksdeild Selfoss brást við með því að skila inn greinargerð til Útlendingastofnunar þar sem rökstutt var að engin ógn stafaði af Wroten en fengu aftur neitun.