Ólafur Ólafsson leikmaður Grindavíkur í körfubolta var hæstánægður með sigur á Njarðvík eftir framlengdan leik í Smáranum í kvöld. Ólafur átti frábæran leik, skoraði 20 stig og tók 8 fráköst í leiknum.
Hann gerði gott betur en það því það má segja að mikilvægasta karfa framlengingarinnar hafi komið frá honum þegar hann setti þriggja stiga körfu og kom Grindvíkingum þremur stigum yfir þegar lítið var eftir af leiknum. Spurður út í leikinn sagði Ólafur þetta:
„Þetta voru mjög mikilvæg úrslit upp á framhaldið, já. Við erum tveimur stigum á eftir Val og ætlum okkur að reyna að færast ofar en þeir í töflunni. Þetta er skref í rétta átt. Við vorum að tapa leiknum með um 10 stigum þegar það var stutt eftir, komum til baka og knýjum fram framlengingu.“
Þetta var allt í járnum nánast frá upphafi til enda en í framlengingunni þá má segja að þú hafir veitt Njarðvíkingum náðarhöggið með þriggja stiga körfunni. Hvernig leið þér á þessum tímapunkti?
„Ég var opinn og skaut bara. Mér var búið að líða vel fram að þessu og í leiknum þrátt fyrir að vera að eiga við einhver meiðsli undanfarið. Ég er að reyna ná mér úr því og leið bara vel í kvöld. Sem betur fer fór það ofan í. Það er bara alltaf gaman þegar liðinu mínu gengur vel og það er ekki hægt að biðja um meira en svona sigur í framlengingu.“
Nú er lítið eftir af deildinni. Er Grindavík á góðri leið með að toppa á réttum tíma?
„Já og nei bara. Við þurfum bara að hugsa einn leik í einu. Ef við höldum þessu áfram með þennan liðsanda þá erum við illviðráðanlegir. Við getum alveg eins mætt í næsta leik og skitið upp á bak.“
Lokamarkmiðið hlýtur samt að vera Íslandsmeistaratitillinn?
„Já eins og hjá öllum hinum liðunum,“ sagði hlæjandi Ólafur Ólafsson í samtali við mbl.is.