Sigur og tap á Spáni

Jón Axel Guðmundsson og Tryggvi Snær Hlinason í leik með …
Jón Axel Guðmundsson og Tryggvi Snær Hlinason í leik með landsliðinu. mbl.is/Eyþór Árnason

Landsliðsmennirnir Jón Axel Guðmundsson og Tryggvi Snær Hlinason voru á ferð með liðum sínum í spænska körfuboltanum í kvöld en áttu misjöfnu gengi að fagna.

Jón Axel og félagar í San Pablo Burgos komust á sigurbraut á ný eftir sjaldséð tap í síðasta leik. Þeir unnu Real Betis örugglega á heimavelli í kvöld, 87:67, og eru sem fyrr á toppi B-deildarinnar með 42 stig. Fuenlabrada og Estudiantes eru með 40 stig og Real Betis 34 í fjórða sætinu.

Jón Axel lék í 14 mínútur með San Pablo og skoraði 6 stig, átti 4 stoðsendingar og tók 3 fráköst á þeim tíma.

Tryggvi og samherjar hans í Bilbao töpuðu fyrir Valencia á útivelli, 89:70, í ACB-deildinni og eru þar áfram í 13. sæti af 18 liðum en þrettánda sætið gefur væntanlega keppnisrétt í Evrópukeppni.

Tryggvi spilaði í 21 mínútu og skoraði 6 stig, tók 4 fráköst og átti 3 stoðsendingar fyrir Bilbao.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert