Gamla brýnið LeBron James þurfti að fara meiddur af velli þegar LA Lakers beið lægri hlut gegn NBA-meisturum Boston Celtics, 101:111, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
James, sem var búinn að skora 22 stig, taka 14 fráköst og gefa níu stoðsendingar, fór af velli meiddur á vinstri nára.
J.J. Redick, þjálfari Lakers, sagðist vitanlega áhyggjufullur yfir meiðslunum á fréttamannafundi eftir leikinn en að hann vissi ekkert meira að svo stöddu.
Slóveninn Luka Doncic átti enn einn stórleikinn fyrir Lakers og skoraði 34 stig ásamt því að taka átta fráköst.
Jayson Tatum var hins vegar stigahæstur í leiknum með 40 stig fyrir Boston ásamt því að taka 12 fráköst og gefa átta stoðsendingar. Jaylen Brown bætti við 31 stigi og sex fráköstum.
Ástralinn Josh Giddey var með þrefalda tvennu fyrir Chicago Bulls þegar liðið hafði betur gegn Miami Heat, 114:109.
Giddey var stigahæstur allra með 26 stig, tíu fráköst og tólf stoðsendingar.
Stórleikur gríska undursins Giannis Antetokounmpo dugði þá ekki til þegar lið hans Milwaukee Bucks tapaði 109:111 fyrir Orlando Magic.
Antetokounmpo var með 37 stig og 11 fráköst fyrir Milwaukee. Paolo Bancher skoraði 29 stig og tók sex fráköst fyrir Orlando.
Önnur úrslit:
Charlotte - Brooklyn 1015:102
Houston - New Orleans 146:117
Atlanta - Indiana 120:118
Toronto - Washington 117:118
Golden State - Detroit 115:110