Oklahoma hafði betur í toppslagnum

Nikola Jokic í baráttu í kvöld.
Nikola Jokic í baráttu í kvöld. AFP/Joshua Gateley

 Oklahoma City Thunder hafði betur gegn Denver Nuggets, 127:103, í bandarísku NBA-deild karla í körfubolta í toppslagnum í vesturdeildinni í kvöld.

Góður leikur hjá Nikola Jokic dugði ekki til en hann skoraði 24 stig, tók 13 fráköst og gaf 9 stoðsendingar fyrir Denver. Shai Gilgeous-Alexander fór á kostum fyrir heimamenn en hann skoraði 40 stig og gaf 10 stoðsendingar.

Denver komst 10:0 yfir í upphafi leiks og það tók Oklahoma næstum þrjár mínútur að fá stig og var liðið einu stigi undir eftir fyrsta leikhlutann.  

Oklahoma gekk betur í öðrum leikhluta og var einu stigi yfir í hálfleik, 61:60. Heimamenn voru þremur stigum yfir, 86:83, eftir þriðja leikhluta og voru með yfirhöndina í fjórða leikhluta og unnu hann 41:20.

Kevin Durant var atkvæðamestur fyrir Phoenix Suns í 125:116-sigri gegn Dallas Mavericks í kvöld. Hann skoraði 21 stig, tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Fyrir Dallas var Naji Marshall atkvæðamestur en hann skoraði 34 stig, tók níu fráköst og gaf tíu stoðsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert