Oklahoma City Thunder hafði betur gegn Denver Nuggets, 127:103, í bandarísku NBA-deild karla í körfubolta í toppslagnum í vesturdeildinni í kvöld.
Góður leikur hjá Nikola Jokic dugði ekki til en hann skoraði 24 stig, tók 13 fráköst og gaf 9 stoðsendingar fyrir Denver. Shai Gilgeous-Alexander fór á kostum fyrir heimamenn en hann skoraði 40 stig og gaf 10 stoðsendingar.
Denver komst 10:0 yfir í upphafi leiks og það tók Oklahoma næstum þrjár mínútur að fá stig og var liðið einu stigi undir eftir fyrsta leikhlutann.
Oklahoma gekk betur í öðrum leikhluta og var einu stigi yfir í hálfleik, 61:60. Heimamenn voru þremur stigum yfir, 86:83, eftir þriðja leikhluta og voru með yfirhöndina í fjórða leikhluta og unnu hann 41:20.
Kevin Durant var atkvæðamestur fyrir Phoenix Suns í 125:116-sigri gegn Dallas Mavericks í kvöld. Hann skoraði 21 stig, tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar.
Fyrir Dallas var Naji Marshall atkvæðamestur en hann skoraði 34 stig, tók níu fráköst og gaf tíu stoðsendingar.