Stjarnan ekki í vandræðum með botnliðið

Denia Davis-Stewart í leiknum í kvöld.
Denia Davis-Stewart í leiknum í kvöld. mbl.is/Karítas

Stjarnan lagði botnlið Aþenu að velli, 85:72, í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik í Breiðholti í kvöld.

Stjarnan fór með sigrinum upp í efsta sæti neðri hluta deildarinnar þar sem liðið er með 18 stig. Aþena er áfram á botninum með tíu stig og er þegar fallin niður í 1. deild.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Stjarnan byrjaði betur og var fimm stigum yfir, 22:17, að loknum fyrsta leikhluta. Aþena sneri hins vegar taflinu við og var fimm stigum yfir, 35:40, í hálfleik.

Í síðari hálfleik tók Stjarnan hins vegar leikinn yfir og vann að lokum þægilegan 13 stiga sigur.

Denia Davis-Stewart átti stórleik fyrir Stjörnuna og skoraði 29 stig ásamt því að taka 18 fráköst. Diljá Ögn Lárusdóttir bætti við 21 stigi og stal boltanum sjö sinnum.

Barbara Ola Zienieweska var stigahæst hjá Aþenu með 15 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert