Stólarnir mörðu Grindvíkinga í framlengingu

Randi Brown skoraði 22 stig fyrir Tindastól.
Randi Brown skoraði 22 stig fyrir Tindastól. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tindastóll vann góðan sigur á Grindavík, 88:85, eftir framlengdan leik í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik á Sauðárkróki í kvöld.

Tindastóll fór með sigrinum í efsta sæti neðri hlutans þar sem liðið er nú með 18 stig. Grindavík er áfram í næstneðsta sæti með 14 stig.

Tindastóll var skrefi á undan framan af og var átta stigum yfir, 43:35, í hálfleik.

Staðan að loknum þriðja leikhluta var 63:53. Í fjórða og síðasta leikhluta bitu Grindvíkingar hins vegar frá sér svo um munaði og tókst að jafna metin í 78:78 þegar sjö sekúndur voru eftir.

Tindastóli tókst ekki að skora í næstu sókn og því þurfti að grípa til framlengingar.

Í henni voru heimakonur ögn sterkari og unnu að lokum þriggja stiga sigur.

Randi Brown og Edyta Ewa Falenczyk voru stigahæstar hjá Tindastóli með 22 stig hvor. Falenczyk tók auk þess átta fráköst.

Stigahæst í leiknum var Daisha Bradford með 28 stig og sjö fráköst fyrir Grindavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert