Hef áhyggjur af þessari frammistöðu

Benedikt Guðmundsson.
Benedikt Guðmundsson. mbl.is/Eyþór

Tindastóll tapaði mjög dýrmætum stigum gegn Njarðvík í baráttu sinni um deildarmeistaratitilinn í Úrvalsdeild karla í körfubolta.

Með tapinu er Stjarnan núna í bílstjórasætinu um efsta sætið en Garðbæingar eiga leik til góða gegn Keflavík og geta með sigri stolið toppsætinu af Tindastóli. 

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Tindastóls, var að vonum svekktur með tapið. Spurður út í þá stöðu sem upp er komin sagði Benedikt þetta:

„Þeir eiga núna leik inni og liðin eru jöfn. En það þarf að spila leikina og þeir eiga engan vísan sigur í Keflavík. En fyrst og fremst er ég bara ósáttur með okkar frammistöðu á báðum endum vallarins.“

Hvað er það sem þú ert ósáttur með í leik þinna manna svona fyrir utan sjálft tapið auðvitað?

„Það gekk erfiðlega hjá mínum mönnum að stoppa sinn mann og halda fyrir framan sig. Það vantaði stuðning þegar það vantaði stuðning frá samherjum. Það sem ég er mest svekktur með er að við spiluðum ekki sem lið sóknarlega. Það hefur verið í lagi hjá okkur í allan vetur. Núna voru menn að reyna skjóta yfir tvo varnarmenn í stað þess að láta boltann rúlla. Menn voru að taka slæmar ákvarðanir sóknarlega sem er áhyggjuefni að sé að koma upp núna fyrst.“

Ef við horfum á leikinn í heild sinni þá ná Njarðvíkingar nokkrum sinnum í leiknum ágætu forskoti sem þitt lið nær að vinna ítrekað niður en aldrei ná þeir að brjóta Njarðvíkinga alveg á bak aftur þó það hafi litið út fyrir að aðeins herslumuninn hafi vantað. Veistu af hverju þínir menn náðu aldrei að brjóta þann múr?

„Við tókum ekki sénsana þegar við gátum náð undirtökunum í leiknum. Við fengum einhverja fáránlega ruðningsdóma eða skref. Njarðvíkingar svara síðan hinum megin og menn voru að láta dómarana pirra sig alltof mikið hérna í kvöld.

Eitt skiptið fáum við hraðaupphlaup og Basile er bara að ræða við dómarann og fær boltann í hausinn í stað þess að vera með fókusinn á leiknum. Það var alls konar svona hlutir sem fóru í hausinn á okkur.

En Njarðvíkurliðið var fáránlega gott og frábærir leikmenn þarna sem voru að taka okkur einn á einn hvað eftir annað. Þeir voru bara betri og eiga sigurinn skilið. Þeir eru bara eitt af þessum þremur toppliðum. Sem betur fer unnum við fyrri leikinn með 18 stigum og töpum þessum með 11 þannig að við eigum vinninginn innbyrðis.“

Myndir þú fyrirgefa Njarðvíkingum þetta tap í kvöld ef þeir myndu færa þínu liði deildarmeistaratitilinn með sigri á Stjörnunni í lokaumferðinni?

„Það eru allir að pæla í því hvernig deildin endar og röðunin fyrir úrslitakeppnina og það allt. Ég hef áhyggjur af þessari frammistöðu hér í kvöld. Mér fannst við ekki spila sem lið og það er það sem ég hef áhyggjur af. Ég vill bara að liðið mitt sé í góðu lagi á þessum árstíma og við vorum ekki flottir í kvöld.

En ég sé alveg enn þá fyrir mér að við getum enn þá unnið þennan deildarmeistaratitil. Stjarnan á eftir Keflavík á morgun og svo Njarðvík í Garðabænum. Það eiga allir erfiða leiki eftir og ef menn eru ekki í sínu besta standi á leikdegi þá bara tapa þeir.

Ég er búinn að vera í þessum bransa í tugi ára og Keflavík er ekkert búið að gefast upp. Vilja ná sæti í úrslitakeppninni og svara fyrir slæmar frammistöður þannig að Stjarnan er ekkert að fara í þægilegan leik á morgun.“

Hvernig hyggstu laga þetta?

„Nú fá menn bara að sjá sína frammistöðu á vídeó og síðan förum við í að æfa það sem þarf að laga. Ef það þyrfti ekkert að laga þá þyrfti ekkert að æfa en hér er hellingur sem við getum lagað,“ sagði Benedikt í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert