Njarðvík tók á móti Tindastóli í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Njarðvíkinga 101:90 í nýju höllinni í Njarðvík.
Eftir 21 umferð eru Njarðvíkingar með 28 stig í þriðja sæti en Tindastóll er með 30 stig á toppi deildarinnar líkt og Stjarnan sem leikur gegn Keflavík annað kvöld.
Njarðvíkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu 11 stiga forskoti í stöðunni 17:6. Stólarnir voru ekki á því að gefa neitt eftir og unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn og minnkuðu muninn í 7 stig áður en fyrsta leikhluta lauk. Staðan var 29:22 eftir fyrsta leikhluta.
Njarðvíkingar náðu mest 10 stiga forskoti í öðrum leikhluta þegar Snjólfur Marel Stefánsson setti þriggja stiga körfu og staðan orðin 34:24. Leikmenn Tindastóls voru ekki á því að gefa neitt eftir og sýndu í framhaldinu mátt sinn og megin. Þeir söxuðu forskot Njarðvíkur hratt niður og jöfnuðu í stöðunni 38:38. Gestirnir gerðu gott betur og náðu forystu í fyrsta skiptið í leiknum í stöðunni 40:38 fyrir Tindastóli.
Njarðvíkingar voru ekki á því að sætta sig við slíkan yfirgang, náðu vopnum sínum á ný og komust yfir með fjórum stigum í röð frá Dominykas Milka. Njarðvíkingar náðu síðan 5 stiga forskoti með þriggja stiga körfu en það tók gestina aðeins nokkrar sekúndur að jafna þann mun í stöðunni 45:45.
Njarðvíkingar náðu að sækja sér þriggja stiga forskot fyrir hálfleikinn og var staðan 49:46 eftir fyrri hálfleikinn.
Dwayne Lautier var með 14 stig og Mario Matasovic með 9 fráköst fyrir Njarðvík í fyrri hálfleik.
Dimitrios Agravanis var sömuleiðis með 14 stig fyrir Tindastól og Sadio Doucoure með 6 fráköst.
Njarðvíkingar voru sterkari framan af þriðja leikhluta og náðu að byggja upp 10 stiga forskot sem þeir héldu að mestu. Tindastóll var þó aldrei langt undan og þegar líða tók á leikhlutann hófu þeir að minnka muninn og tókst að vinna upp forskot Njarðvíkinga fyrir lok leikhlutans og var munurinn því þrjú stig fyrir fjórða leikhluta líkt og hann var í hálfleik.
Staðan fyrir lokaleikhlutann var 68:65 fyrir Njarðvík og ljóst að gríðarlega spennandi lokakafli leiksins væri fram undan.
Tindastóll byrjaði fjórða leikhluta á því að jafna leikinn með þriggja stiga körfu frá Dimitrios. Njarðvíkingar settu í kjölfarið niður tvær tveggja stiga körfur í röð og náðu 4 stiga forskoti. Tindastóll jafnaði leikinn með tveimur tveggja stiga körfum.
Eftir þetta var gríðarleg spenna í höllinni og harkan mikil. Njarðvíkingar börðust eins og ljón og byggðu upp gott forskot sem leikmenn Tindastóls áttu erfitt með að vinna niður. Þegar 4:14 sekúndur voru eftir af leiknum voru Njarðvíkingar 12 stigum yfir í stöðunni 87:75.
Dominykas Milka átti stórkostlegan leikhluta fyrir Njarðvik og það var því við hæfi að hann ræki smiðshöggið á glæsilegan leikhluta Njarðvíkur þegar hann setti þriggja stiga körfu og kom Njarðvíkingum 15 stigum yfir í stöðunni 90:75 og má segja að þetta hafi verið náðarhögg Tindastóls í leiknum.
Njarðvíkingar náðu mest 17 stiga forskoti í stöðunni 97:80 en þá tókst Skagfirðingum að saxa örlítið á forskot Njarðvíkur. Fór svo að Njarðvík vann að lokum 11 stiga sigur.
Dominykas Milka var stórkostlegur fyrir Njarðvíkinga og skoraði 26 stig. Mario Matasovic tók 14 fráköst.
IceMar-höllin, Bónus deild karla, 13. mars 2025.
Gangur leiksins:: 8:3, 15:6, 22:15, 29:22, 36:30, 38:38, 42:40, 49:46, 53:48, 60:55, 65:58, 68:65, 72:72, 83:75, 92:77, 101:90.
Njarðvík: Dominykas Milka 26/7 fráköst/5 varin skot, Dwayne Lautier-Ogunleye 21/10 fráköst/6 stoðsendingar, Khalil Shabazz 20/4 fráköst/9 stoðsendingar, Mario Matasovic 15/14 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 13/4 fráköst, Snjólfur Marel Stefánsson 6.
Fráköst: 29 í vörn, 11 í sókn.
Tindastóll: Dimitrios Agravanis 21/7 fráköst, Dedrick Deon Basile 20, Sadio Doucoure 17/9 fráköst, Davis Geks 12, Giannis Agravanis 7/5 fráköst/5 stoðsendingar, Sigtryggur Arnar Björnsson 6, Adomas Drungilas 5, Pétur Rúnar Birgisson 2/7 stoðsendingar.
Fráköst: 23 í vörn, 9 í sókn.
Dómarar: Bjarki Þór Davíðsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Ingi Björn Jónsson.
Dimitrios Agravanis var með 21 stig fyrir Tindastól og Sadio Doucoure með 9 fráköst.