Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfuknattleik, átti góðan leik fyrir Maroussi þegar liðið tapaði fyrir stórliði Olympiacos, 88:104, í efstu deild Grikklands í kvöld.
Ekkert gengur hjá Maroussi sem er í neðsta sæti grísku deildarinnar með aðeins fimm sigra í 20 leikjum og er á leið í umspil gegn liðum í næstefstu deild um að halda sæti sínu á meðal þeirra bestu.
Elvar Már var nálægt því að vera með tvöfalda tvennu þegar hann skoraði 12 stig, gaf átta stoðsendingar og tók tvö fráköst á 33 mínútum hjá Maroussi í kvöld.