Daníel Andri Halldórsson þjálfari Þórs Akureyri var afar svekktur eftir tap gegn Grindavík í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í körfubolta í Smáranum í Kópavogi í kvöld. Spurður út í tapið sagði Daníel Andri þetta.
„Þetta er annað lið sem er inni á vellinum hjá okkur en vanalega. Ester, Hollendingurinn okkar hefur alltaf byrjað hjá okkur en síðan kom í ljós í byrjun vikunnar að hún væri ekki leikfær. Það riðlaði bara öllu hjá okkur. Undirbúningurinn var greinilega ekki nægur til að skipuleggja þá breytingu. Síðan eru leikmenn með snúna ökkla og hægir á sér í kvöld og það sést glögglega á varnarleiknum. Það er auðvelt að komast framhjá okkur og festa okkur í screen-um,“ sagði Daníel.
Í þriðja leikhluta er algjör viðsnúningur á leiknum þar sem Þór vinnur upp 11 stiga forskot Grindavíkur og kemst yfir í leiknum á tímabili. Leit allt út fyrir að þitt lið væri að fara keyra yfir Grindavíkurliðið. Síðan hættir þetta áhlaup strax eftir leikhlutann. Hvað gerðist á þessum tímapunkti sem útskýrir þennan viðsnúning?
„Mér fannst við bara að vera jafna þær í baráttuþáttunum. Við vorum með miklu fleiri tapaða bolta og miklu færri sóknarfráköst heldur en þær. Síðan í þriðja leikhluta þá bara snýst þetta við. Við erum með fleiri sóknarfráköst og svo snúa þær þessu aftur við í fjórða leikhluta og enda með fleiri sóknarfráköst og við töpum fleiri boltum. Grindavík vildi þetta einfaldlega bara meira í kvöld. Frábærlega upp settur leikur hjá þeim og vel mætt hjá þeirra stuðningsfólki. Hrós til þeirra.“
Næsta verkefni ykkar hlýtur þá að fara fókusa á úrslitakeppnina. Þú talar um meiðsli í þínu liði. Verður þetta vandamál þegar úrslitakeppnin hefst?
„Við verðum bara að sjá hvernig meiðslastaðan verður í byrjun apríl. Við þurfum að finna gamla takta aftur og notum þessa litlu pásu sem við fáum til að gera það og vonandi náum við okkur bara af þessum meiðslum. En þegar við mætum úrslitakeppnina í Höllinni á Akureyri þá verðum við í góðum málum," sagði Daníel Andri í samtali við mbl.is.