Gott að heyra þetta frá hlutlausum aðila

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga, ræðir við leikmenn sína í …
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga, ræðir við leikmenn sína í kvöld. mbl.is/Karítas

Njarðvíkurkonur tryggðu sér sæti í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í körfubolta í kvöld með sigri gegn Hamar/Þór í undanúrslitum í Smáranum í kvöld. 

Hamarskonur léku frábæran leik og leiddu lengst af í leiknum og voru yfir í lok allra leikhluta að undanskyldum fjórða leikhluta. Það lá því beinast við að spyrja Einar Árna Jóhannsson þjálfara Njarðvíkur hvort hans lið hafi átt sigurinn skilið í kvöld þegar mbl.is náði af honum tali.

„Alveg eins. Ef þú hefðir snúið spurningunni við og spurt hvort Hamar/Þór hefði átt sigurinn skilið þá hefði ég svarað þér eins. Körfubolti er í 40 mínútur og mér fannst við sýna mikinn styrk á síðustu 5 mínútum leiksins. Ég er búinn að segja það í fleiri viðtölum að við vorum í þeirri sérstöku stöðu að það var ætlast til þess að við myndum vinna þennan leik.

Við vissum samt alveg að andstæðingurinn væri hættulegir. Þær eru gríðarlega góðar. Það kom mér því ekkert á óvart að þetta hafi farið í spennuleik. Það var hrollur í okkur í dag. Við vorum að taka skrýtnar ákvarðanir oft á tíðum og missa mörg stutt skot í byrjun leiksins. Ég trúi að nú séum við búnar að koma því frá og mætum eðlilegar til leiks á laugardaginn í úrslitaleikinn,“ sagði Einar.

Ólíklegt að það takist

Hafandi horft á fjölmarga leiki Njarðvíkurkvenna í vetur verður að segjast að þær voru langt frá sínu besta í kvöld. Þessi frammistaða mun ekki duga til að vinna bikarmeistaratitil er það?

„Ólíklegt að það takist. Það verður annað gott lið sem við mætum á laugardag. Annað liðið, Grindavík verður algjörlega pressulaust ef þær komast í úrslitaleikinn. Þórs liðið er frábært og búið að spila feykilega vel í vetur. En ég get tekið undir með þér og gott að heyra frá hlutlausum aðila að þetta hafi verið langt frá okkar besta.

Það er rétt hjá þér og staðreynd að við höfum oft spilað betur.  Það er samt styrkleiki að geta unnið leiki án þess að vera spila skínandi góðan leik. Við höfum gert það áður og þurftum að gera það í kvöld. En ég vona að við getum unnið fallegan sigur á laugardaginn.“

Yfir á réttum tímapunktum

Það hlýtur samt að vera sætt að vinna leik eftir að hafa verið undir fyrstu þrjá leikhlutana ekki satt?

„Fegurð þessarar göfugu íþróttar sem körfuboltinn er felst í að þú þarft bara að vera yfir á rétta tímapunktinum. Hamar/Þór voru mjög góðar í kvöld, settu niður mjög erfið skot og áttu frábæran leik. Við náðum að herða okkur varnarlega og færa skynsemi í sóknarleikinn síðustu fimm mínúturnar og það er ljúft að vinna svona leik," sagði Einar Árni í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert