„Maður sér Brittany í hyllingum“

Þorleifur Ólafsson stýrir sínu liði á hliðarlínunni í kvöld.
Þorleifur Ólafsson stýrir sínu liði á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Karítas

Þorleifur Ólafsson var að vonum ánægður með stórkostlegan sigur Grindavíkur á Þór frá Akureyri í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í körfubolta í Smáranum í Kópavogi í kvöld.

Grindavíkurliðið, sem hefur átt erfitt uppdráttar í vetur, spilaði oft á tíðum stórkostlegan körfubolta sem kom mörgum á óvart. Við spurðum Þorleif út í leikinn í kvöld. 

„Þetta var í rauninni bara frábær leikur af okkar hálfu fyrir utan 7 mínútur í þriðja leikhluta. Það er í fljótu bragði mín greining á leiknum. Við höfum verið að spila undir pari í vetur og kannski loksins í kvöld sýndum við hvað í okkur býr. Vonandi er þetta bara það sem koma skal. Það er erfitt að halda velgengninni áfram og gera vel en við þurfum að taka þetta með okkur í næsta leik sem er mikilvægasti leikurinn á tímabilinu og ég vona að við náum því,“ sagði Þorleifur.

Hættu að þora í sókninni

Hvað gerist hjá þínu liði í þriðja leikhluta? Það leit á tímabili út eins og Grindavíkurkonur væru búnar að gefast og Þór væri að fara keyra yfir þitt lið. 

„Við hættum að þora sóknarlega og leyfðum þeim að keyra á okkur. Við tókum bara leikhlé og núllstilltum okkur. Það eina sem við breytum eftir að setjum okkar leik aftur í gang er að við fórum bara að hlaupa til baka og vera ákveðnari í sókninni. Við byrjuðum þennan leik fínt og enduðum hann vel.“

Það verður suðurnesjaslagur á laugardaginn gegn Njarðvík. Hvað þarf til að vinna Njarðvík?

„Það þarf allt að ganga upp. Það er svo langt síðan ég hef spilað gegn Njarðvík og liðið breyst mikið en við líka. Maður sér Brittany í hyllingum því hún er frábær en Njarðvík er með mjög öflugt lið og eru að standa sig frábærlega, ekki að ástæðulausu. Við þurfum að undirbúa okkur vel fyrir leikinn á laugardag.“

Klárlega styrkleiki

Þú ert með fyrrum leikmann Njarðvíkur, Enu Viso í þínum röðum. Er það styrkleiki eða veikleiki?

„Klárlega styrkleiki. Hún þekkir liðið og veit hvað þær voru að gera í byrjun tímabilsins. Sóknarleikurinn þeirra hefur reyndar breyst því hún var látin fara út af áherslubreytingum. En þetta er klárlega styrkleiki.“

Ef ég kref þig um spá fyrir leikinn á laugardaginn. Hvernig verða lokatölur?

„Grindavík vinnur 85:78," sagði Þorleifur í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert