Hákon Hjartarson þjálfari Hamars/Þórs var að vonum ansi svekktur með naumt tap gegn Njarðvík í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í körfubolta í kvöld í Smáranum í Kópavogi. Spurður út í leikinn sagði Hákon þetta.
„Já það sviða einhverjar tvær mínútur í fjórða leikhluta þar sem þeim tekst að komast fimm stigum yfir. Það svíður rosalega þar sem við vorum búnar að gera gríðarlega vel bæði varnar og sóknarlega. Virkilega sárt finnst mér. Samt sem áður er þetta fyrsti leikurinn hjá öllum þessum stelpum á þessu sviði og ég er virkilega stoltur af þeim. Mér fannst við ekki slakara liðið hérna í kvöld.“
Ef ég spyr þig bara hreint út. Datt betra lið leiksins út í kvöld?
„Mér fannst við ekki lakari. Mér fannst við betra liðið. Ég ætla bara að vera hreinskilinn með það. En körfubolti er þannig að þú þarft að standa vaktina allar 40 mínúturnar og það voru tvær mínútur í þessum leik sem kostuðu okkur sigurinn. Þetta er ungt lið og því ekkert út á það að setja að eitthvað hafi klikkað hjá mínum konum.“
Má því segja að reynslan hafi að lokum skorið úr um sigurvegara?
„Já alveg klárlega. Þú sérð að Brittany tekur bara yfir leikinn hjá þeim á meðan við vorum aðeins að flýta okkur.“
Hvað tekur núna við hjá Hamar/Þór?
„Næst er bara annar úrslitaleikur á miðvikudaginn í deildinni gegn Grindavík um hvort við förum í úrslitakeppnina eða ekki. Með sigri erum við að fara enda í 7. sæti og mæta Njarðvík og getum þá hefnt fyrir þetta tap í kvöld," sagði Hákon í samtali við mbl.is.