Njarðvík er komin í úrslitaeinvígi gegn annað hvort Grindavík eða Þór frá Akureyri í bikarkeppni kvenna í körfubolta eftir nauman sigur á Hamri/Þór 84:81 í Smáranum í Kópavogi í kvöld.
Lið Hamars byrjaði leikinn afar vel og náði strax forskoti í leiknum. Njarðvíkurkonur voru í því hlutverki að elta allan fyrsta leikhlutann ef frá er talið þegar þær náðu tveggja stiga forskoti í stöðunni 16:14.
Lið Hamars/Þórs var mun ferskara framan af og var sóknarleikur þeirra mun árangursríkari en Njarðvíkurkvenna. Staðan eftir fyrsta leikhluta 21:18 fyrir Hamar/Þór.
Njarðvíkurkonur klikkuðu á sinni fyrstu sókn í öðrum leikhluta og svöruðu Hamarskonur með þriggja stiga körfu frá Matildu Sóldísi Svan Hjördísardóttur. Áfram héldu Hamarskonur að auka muninn og náðu 8 stiga forskoti í stöðunni 34:26 fyrir Hamar/Þór.
Njarðvíkurkonur voru ekki á þeim buxunum að gefast upp og náðu forystu í stöðunni 35:34. Eftir það skiptust liðin á að komast yfir en það var að lokum Hamar/Þór sem fór með eins stigs forskot inn í hálfleikinn.
Staðan í hálfleik 41:40 fyrir Hamar/Þór.
Lið Hamars/Þórs hélt áfram að vera skrefinu á undan Njarðvíkingum í þriðja leikhluta. Þær náðu mest 7 stiga forskoti í stöðunni 47:40 fyrir Hamar/Þór.
Njarðvíkurkonum tókst að ná forskoti með þriggja stiga körfu frá Kristu Gló Magnúsdóttur og var þá staðan 57:55 fyrir Njarðvík. Hamarskonur gáfust þó ekki upp og náðu að klára leikhlutann einu stigi yfir.
Staðan eftir þriðja leikhluta 60:59 fyrir Hamar/Þór.
Brittany Dinkins byrjaði fjórða leikhluta á þriggja stiga körfu og kom Njarðvíkurkonum yfir 62:60. Njarðvíkurkonur náðu að auka muninn í þrjú stig í stöðunni 65:62.
Hamar/Þór jafnaði leikinn í 68:68 og 70:70 en Njarðvíkurkonur náðu að byggja upp 5 stiga forskoti í stöðunni 77:72 og aðeins 30 sekúndur eftir af leiknum. Hamar/Þór skoraði þrjár þriggja stiga körfur í röð á lokasekúndum leiksins og gátu í síðustu sókn sinni jafnað með flautuþristi en það tókst ekki.
Njarðvíkurkonur reyndust því sterkari á lokasekúndum leiksins og unnu að lokum sigur sem tryggði þeim farseðilinn í úrslitaleikinn. Skal það samt tekið fram að frammistaða Njarðvíkur í kvöld mun líklega ekki fleyta liðinu langt í úrslitaleiknum sjálfum.
Brittany Dinkins skoraði 33 stig fyrir Njarðvík og Emilie Sofie Hesseldal var með 19 fráköst.
Abby Claire Beeman með 27 stig fyrir Hamar/Þór og Kristrún Ríkey Ólafsdóttir var með 10 fráköst.