Lettneski körfuboltamaðurinn Kristaps Porzingis átti stórleik fyrir NBA-meistara Boston Celtics þegar liðið hafði betur gegn Brooklyn Nets, 104:96, í deildinni í nótt.
Porzingis var með tvöfalda tvennu er hann skoraði 25 stig, tók 13 fráköst og varði þrjú skot.
Boston, sem lék án tveggja stærstu stjarna sinna Jayson Tatum og Jaylen Brown, er í öðru sæti Austurdeildar NBA með 50 sigra í 69 leikjum.
Atlanta Hawks vann góðan sigur á Charlotte Hornets, 134:102, þar sem Trae Young átti stórleik.
Young skoraði 31 stig, tók átta fráköst og stal boltanum þrisvar sinnum.
Önnur úrslit:
Golden State Warriors – Milwaukee Bucks 104:93
LA Clippers – Cleveland Cavaliers 132:119