Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Valsmanna var að vonum ánægður með 24 stiga sigur á Keflavík í undanúrslitum bikarkeppni karla í körfubolta í kvöld. Spurður að því hvað hafi skapað sigurinn fyrir Valsmenn í kvöld sagði Finnur þetta.
„Um leið og við náðum að láta varnarleikinn smella eftir smá erfiðleika í byrjun og fengum ró í sóknarleikinn þá fór þetta að ganga vel fannst mér. En það var heilt yfir góður varnarleikur sem skilaði þessu hjá okkur,“ sagði Finnur.
Fyrsti leikhlutinn var nokkuð jafn en síðan kom annar leikhluti þá skildu leiðir og Valsmenn afgreiddu Keflvíkinga nokkuð þægilega. Sýna þessi úrslit raunverulegan getumun á þessum tveimur liðum?
„Nei alls ekki. Það koma svona tímapunktar þar sem allt fer niður hjá okkur. Kristinn Pálsson setur tvo þrista í röð og Joshua setur fullt af flottum körfum og mikinn kraft. Síðan þróast svona leikir stundum svona þegar andstæðingurinn er kominn í vandræði og fer að flýta sér. Þá gerast mistök og munurinn fer að aukast. Stundum þróast svona leikir á þennan hátt.“
Það verður slagur tveggja erkifjenda hérna á laugardaginn þegar Valsmenn mæta KR-ingum í úrslitum. Hvernig sérðu það verkefni fyrir þér?
„KR-ingar eru með hörkulið og vel mannaðir. Frábær hefð í vesturbænum sem ég þekki ansi vel sjálfur. Við Valsmenn erum bara spenntir að fara í úrslitaleikinn alveg sama hvort það sé á móti KR eða einhverju öðru liði.“
Er eitthvað sem þú vilt sjá þitt lið gera betur í leiknum á laugardaginn?
„Það er alltaf eitthvað sem við þjálfarar getum fundið. Það eru fullt af hlutum sem við getum gert betur. Það er líka bara vegferðin sem við erum á að reyna verða betri með hverjum leik. Við þurfum að skoða þennan leik og læra af honum. Verða síðan ennþá betri á laugardaginn,“ sagði Finnur Freyr í samtali við mbl.is.