Það gekk ekkert hjá okkur.

Igor Maric ræðir við dómarana í kvöld.
Igor Maric ræðir við dómarana í kvöld. mbl.is/Eyþór

Keflvíkingar töpuðu helst til stórt gegn Valsmönnum í undanúrslitum bikarkeppni karla í körfubolta í Smáranum í Kópavogi í kvöld.

Það verða því Valur og KR sem mætast í úrslitaleiknum á laugardag. Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur var að vonum svekktur með tapið þegar mbl.is náði af honum tali. 

Hvað varð þínu liði að falli í kvöld?

„Sóknin allan leikinn var bara hræðileg. Við byrjuðum leikinn ágætlega varnarlega en eftir því sem leið á leikinn þá bara versnaði sóknarleikurinn okkar og við hittum ekkert og þá bara varð þetta erfitt því Valsmenn eru mjög gott lið og með mjög góða vörn. Það sem við ætluðum að gera bara gekk ekki og það gekk ekkert upp hjá okkur,“ sagði Sigurður.

Fyrsti leikhlutinn var nokkuð góður hjá Keflvíkingum og munurinn aðeins tvö stig eftir hann þrátt fyrir að hafa lent í 9 stiga áhlaupi frá Valsmönnum í upphafi leiks. En þið náið ekki að fylgja því eftir í öðrum leikhluta?

„Nei ég hélt að værum á staðnum sem við ætluðum að vera á eftir fyrsta leikhluta en það reyndist ekki rétt hjá mér.“

Mjög mikið af þriggja stiga skotum sem fara forgörðum hjá þínu liði í kvöld. Var það ykkar banabiti?

„Já af því að þetta lið er þannig samsett að þetta eru þriggja stiga skyttur. Það er enginn miðherji sem við gátum notað til að leysa upp sóknina okkar. Þannig að ef þessar skyttur hitta ekki þá erum við bara í vandræðum.“

Núna er þessari keppni lokið og framundan er síðasta umferðin í deildinni þar sem Keflavík berst fyrir því að komast í úrslitakeppnina. Ertu vongóður um að komast þangað með sigri á Þór frá Þorlákshöfn?

„Við þurfum bara að sjá hvert það leiðir okkur því þetta er ekki í okkar höndum. Við þurfum hinsvegar að vinna þann leik og þá eigum við séns,“ sagði Sigurður í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert