Bandaríski kaupsýslumaðurinn Bill Chisholm hefur samþykkt að kaupa bandaríska körfuboltafélagið Boston Celtics á 6,1 milljarða bandaríkjadala, sem jafngildir rétt tæplega 810 milljörðum íslenskra króna.
ESPN greinir frá og kemur þar fram að um hæstu upphæð sé að ræða sem greidd hefur verið fyrir íþróttafélag í Norður-Ameríku.
Chisholm er fæddur og uppalinn í grennd við Boston í Massachusetts-ríki og hefur stutt félagið alla sína ævi.
Grousbeck fjölskyldan hefur átt Boston Celtics frá árinu 2002 en tilkynnti á síðasta ári að hún hygðist selja meirihluta í félaginu árið 2024 eða 2025.
Wyc Grousbeck mun halda áfram sem framkvæmdastjóri félagsins þar til tímabilinu 2027-28 lýkur.
Boston er ríkjandi NBA-meistari og er sem stendur í öðru sæti Austurdeildar NBA-deildarinnar.