Miðasala á EM 2025 í körfuknattleik karla mun hefjast skömmu eftir að dregið verður í riðla á mótinu. Drátturinn fer fram eftir viku, 27. mars, og munu Íslendingar hafa forkaupsrétt á miðakaup fyrstu fimm dagana eftir að sala hefst.
Í tilkynningu frá KKÍ kemur fram að Íslendingar fái þennan forkaupsrétt þar sem Ísland var sérstaklega valið af gestgjafanum Póllandi til þess að vera í riðli sem leikinn verður í Katowice þar í landi.
KKÍ mun gefa út hlekk fyrir miðasöluna á milli 27. til 30. mars og mun tilkynna sérstaklega um það.
Leikdagar eru 28., 30., 31. ágúst sem og 2. og 4. september. Leiktímar eru kl. 14.00, 17.00 og 20.30 að staðartíma og leika Pólverjar alltaf síðasta leik dagsins. KKÍ veit ekki leiktíma strákanna okkar fyrr en eftir að dregið hefur verið í riðla. Miðasölu er skipt í tvennt, hægt er að kaupa einn miða fyrir fyrstu tvo leiki hvers dags og svo annan miða fyrir þann síðasta sem er þá alltaf leikur Pólverja.
Ef þannig fer að Ísland leiki við Pólland laugardaginn 30. ágúst verða einungis 1.500 miðar í boði fyrir Íslendinga. Kemur það endanlega í ljós eftir að dregið verður í riðlana hvaða dag strákarnir okkar leika við Pólland.
Á alla aðra leiki mun Ísland fá að minnsta kosti 2.577 miða, sem verða fyrir aftan bekk Íslands.
Verða þrjú verðsvæði í boði og skiptist það svona:
Svæði 1 – 95 evrur
Svæði 2 – 75 evrur
Svæði 2 – 50 evrur