Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Þessari sniðugu mynd náði Einar Falur Ingólfsson í Ljónagryfjunni í Njarðvík keppnistímabilið 1989-1990 þegar Njarðvík tók á móti Tindastóli á Íslandsmóti karla í körfuknattleik. Í vetur urðu þau tíðindi að Njarðvíkingar endurnýjuðu húsakynni sín og þetta fræga íþróttahús er því ekki lengur vettvangur meistaraflokksleikja í íþróttinni.
Boltinn virðist vera heit kartafla á þessu augnabliki því engu líkara er en að leikmenn kæri sig ekki um að snerta knöttinn. Einhvern tíma hefði það þótt saga til næsta bæjar að hvorki bræðurnir Sturla og Teitur Örlygssynir né Valur Ingimundarson kærðu sig um að vera með boltann í höndunum.
Sturla er lengst til vinstri á myndinni og næstur er Patrick Releford (númer 12). Teitur er lengst til hægri á myndinni en þeir léku allir með Njarðvík. Í búningi Tindastóls eru Bo Heyden (númer 14) og Valur Ingimundarson.
Var þetta fyrsta keppnistímabil Tindastóls í efstu deild og Heyden er fyrsti erlendi leikmaðurinn í sögu liðsins. Hann skilaði tæplega 29 stigum að meðaltali í leik í deildinni um veturinn. Releford skoraði tæp 26 stig að jafnaði fyrir Njarðvík.
Til útskýringar má nefna að þegar boltinn er á leið út af vellinum þá eiga leikmenn í körfunni og handboltanum það til að setja hendurnar ósjálfrátt upp til marks um að þeir hafi ekki snert hann síðast. Í þeirri von um að eiga innkastið þegar dómararnir hafa kveðið upp sinn úrskurð.
Í dag ráðast úrslitin í bikarkeppni KKÍ þegar úrslitaleikirnir fara fram í Smáranum í Kópavogi. Í kvennaflokki mætast Grindavík og Njarðvík en í karlaflokki eigast við Valur og KR.
Mbl.is á ekki von á öðru en þar muni leikmenn ólmir vilja snerta knöttinn enda er slíkt líklegt til árangurs í bikarúrslitaleikjum.